135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[15:04]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þau viðbrögð sem ég hef fengið við þessu frumvarpi og ég met þau sem svo að það sé góður stuðningur við frumvarpið og markmið þess. Ég ætla að fara aðeins yfir þau mál sem hafa komið fram í mjög málefnalegri og góðri umræðu. Ég vil byrja á því að nefna ákveðin mál sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir velti upp, hún er reyndar ekki viðstödd, en ef ég skildi það rétt þá tengist það fleiri málum, m.a. því sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir benti svo sannarlega réttilega á, hversu mikilvægt er að auka samkeppni á þessu sviði og besta leiðin til þess er að lækka verðið. Hv. þingmaður spurði hvernig póstverslun væri fyrir komið og hvort það væri ekki rétt skilið sem kom fram í andsvari mínu við hv. þm. Jón Magnússon að hugmyndin með þessu sé sú að þetta auðveldi póstverslun sem er í raun heimil núna. Það er enginn sem getur bannað Íslendingi að fara með lyfseðil sinn í apótek á Evrópska efnahagssvæðinu þótt slíkt sé augljóslega háð tungumálaannmörkum og öðru slíku. Hér er verið að auðvelda slíkt, það verður opnað fyrir það sem raunverulega leið, þó að því gefnu að viðkomandi læknir muni ávísa á eitthvert annað lyf en er til staðar á landinu, ef svo bæri undir, en þá er ekkert sem stoppar það.

Allt það sem hér er verið að gera miðar að því að stækka markaðinn. Þess vegna höfum við verið að vinna með Norðurlöndunum og í því skyni tók ég upp tillögu á fundi með norrænum heilbrigðisráðherrum um að vera með einn sameiginlegan lyfjamarkað, tillögu sem var samþykkt og nú þegar hafa fyrstu skrefin í því verið stigin. Það gengur allt út á það að okkar litli íslenski markaður stækki og að auðvelda aðilum, hvort sem það eru stofnanir eða einstaklingar, aðgengi að góðum lyfjum á þeim mörkuðum sem við þekkjum. Hið sama gildir um reglugerðarbreytinguna varðandi fylgiseðlana, það er nákvæmlega það sem við erum að reyna að gera, að sjá til þess að við eigum aðgang að fleiri lyfjum en við höfum núna og að þeim aðilum sem hafa áhuga á því að flytja inn lyf verði gert það eins auðvelt og mögulegt er.

Ég ítreka það hins vegar að við höfum engan áhuga á því að slá af faglegum kröfum. Það kemur af því að þeir aðilar sem munu hafa möguleika á því að sjá um milligöngu hvað þessa verslun varðar verða að hafa lyfsöluleyfi og vera tengdir við apótek eins og kom ágætlega fram hjá hv. þm. Ástu Möller og hún nefndi fölsuð lyf sem fara fyrst og fremst og að stærstum hluta í gegnum netverslun. Hér er ekki um að ræða það sem er kallað netverslun heldur póstverslun. Þegar talað er um netverslun almennt þá þekkja menn að á netinu eru alls konar tilboð sem ekki fara í gegnum hið hefðbundna kerfi sem við notum alla jafna og við höfum engan áhuga á því að fara þá leið.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir ræddi hvaða áhrif þetta hefði á ríkissjóð, varðandi umsögn fjármálaráðuneytisins, en þá höfum við ekki farið í að reyna að reikna það niður hvað þetta eigi að spara, enda er mjög erfitt að átta sig á því þegar menn fara í aðgerðir sem þessar. Ég held að það hefði verið mjög erfitt ef menn hefðu farið út í það að reyna að spá einhverju um það hverju aðgangurinn að Evrópska efnahagssvæðinu á sínum tíma eða EFTA, skilaði í krónum og aurum og þó að þetta sé ekki af þeirri stærðargráðu þá er prinsippið hið sama. Það liggur fyrir að póstverslun á að auka samkeppni, auka aðgengi, gefa fleiri aðilum kost á því að taka þátt í að vera með framboð af góðum lyfjum á betra verði en nú er. Eftir því sem fleiri aðilar hafa tök á því að selja lyf, t.d. nikótínlyf og flúorlyfin sem bæði flokkast undir forvarnamál, þá mætti ætla að verð á lyfjum lækkaði, annað væri sérstakt.

Varðandi það að styrkja lyfjanefndirnar þá er markmiðið að stýringin verði betri, bæði fagleg og fjárhagsleg stýring á lyfjum, sem á að skila sér fyrst og fremst til hins opinbera sem alla jafnan borgar þann reikning á heilbrigðisstofnunum.

Hv. þm. Björk Guðjónsdóttir og hv. þm. Ásta Möller komu inn á þátt sem varðar gagnsæið, þegar menn tala um að fara þá leið að keppa í verði en ekki í afslætti. Þar er vísað til þess sem gert hefur verið í öðrum löndum, það er afsláttarfyrirkomulagið sem menn hafa verið með sem hefur flækt markaðinn og gert það að verkum að hann er mjög ógagnsær og hefur í rauninni hindrað eðlilega samkeppni. Hér erum við að fara þá leið — við hindrum ekki að menn geti lækkað verðið, þvert á móti ýtum við undir að hægt sé að lækka verðið en það er hins vegar gert með því að verðið sé lækkað fyrir alla í stað þess að vera með þetta flókna afsláttarfyrirkomulag sem hefur þegar á reynir ekki nýst vel. Ég er alveg sammála þeim sem hér hafa talað um þetta atriði, t.d. hv. þm. Björk Guðjónsdóttur, að þetta einstaka atriði skiptir mestu máli. Það skiptir mestu máli ef við ætlum að ná niður lyfjaverði á hinum almenna markaði á Íslandi.

Hv. þm. Ásta Möller fór yfir það hversu hátt hlutfall þetta er af útgjöldum heilbrigðiskerfisins en benti á að það hefur lækkað sem hlutfall af því samt sem áður, ef tekið er langt tímabil. En það eitt og sér segir ekki allt þótt það sé góður mælikvarði einfaldlega vegna þess að heilbrigðisútgjöld á Íslandi hafa aukist mjög og mun meira en í nær öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Prósentan ein og sér segir því ekki allt, þ.e. hlutfallið, þegar við fjárfestum meira í heilbrigðiskerfinu en aðrar þjóðir þá ætti það ekki að vera náttúrulögmál að hlutfall lyfjakostnaðar væri einhver föst prósenta. Þau lyf sem Íslendingar nýta eru ekki dýrari í framleiðslu en þau lyf sem aðrir Evrópubúar nota eða annars staðar í heiminum ef út í það er farið.

Hv. þm. Ásta Möller fór inn á marga góða þætti. Eitt var gegnsæið á markaðnum sem hv. þingmaður fór yfir og er engu við það að bæta. Sömuleiðis varðandi greiðsluþátttökuna sem er auðvitað afskaplega mikilvægt mál í þessu samhengi. Það skiptir máli að hún sé þess eðlis að hún ýti ekki undir sóun og það er eitt af því sem nefnd undir forustu Péturs Blöndals er að skoða og ég vonast til að við fáum þar góða tillögu um hvernig við getum breytt til hins betra. Ýmislegt margt gott kom fram í ræðu hv. þm. Ástu Möller, sem er formaður heilbrigðisnefndar, og það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það skiptir miklu máli að hv. heilbrigðisnefnd fari vel yfir þetta mál.

Það hefur verið rætt um nikótínlyfin, hv. þm. Paul Nikolov og hv. þm. Björk Guðjónsdóttir lýstu bæði áhuga á þeim þætti frumvarpsins og fögnuðu þeirri breytingu sem þar er gert er ráð fyrir og færðu fyrir því gild rök. Ég verð að viðurkenna að ég er svo lánsamur að mér hefur aldrei tekist að byrja að reykja og er því ekki neinn sérfræðingur þegar kemur að því hvernig eigi að hætta þeim ósóma, ég er lánsamur hvað það varðar og ýmislegt annað sem betur fer, en ég hef skilið þetta þannig að í þessum verslunum sé heimilt að selja allt annað en það sem er lyfseðilsskylt. Það hefur verið sú nálgun sem við erum með en það er sjálfsagt að fara yfir þetta í nefndinni ef nauðsynlegt er að telja fleiri þætti upp, þá er það a.m.k. í mínum huga sjálfsagt að gera það og ég treysti því að nefndin fari vel yfir það.

Varðandi póstverslunina þá er hún til víðs vegar í álfunni. Stærsta einstaka póstverslunin heitir DocMorris, hún er þýsk og var stofnuð árið 2000. Hún er með 700 þúsund borgandi viðskiptavini og hefur 20 þúsund mismunandi lyf á lager ef þannig má að orði komast. Hér er því ekki verið að finna upp eitthvað sem ekki hefur verið gert áður. Eins og ég nefndi áður þá stöndum við frammi fyrir því sem við getum kallað vanda lítils markaðssvæðis og þar skipum við okkur með ríkjum á borð við Kýpur, Eystrasaltsríkin, jafnvel Möltu og Lúxemborg og Liechtenstein. Þó að sumar þessar þjóðir hafi önnur úrræði en við höfum þá er þetta varðandi lyfjakostnaðinn í rauninni vandi álfunnar og kannski fleiri svæða. Það er verið að vinna í þessum málum og ég hef rætt þetta á þeim fundum sem ég hef átt með kommissörum í Evrópusambandinu sem fara með þessi mál og þar er mikill skilningur á aðstæðum okkar og mikill vilji til að opna upp markaðinn á því sviði og viðbrögðin sem við höfum fengið við tillögum sem við höfum kynnt fyrir þessum aðilum, tillögum sem fram koma í þessu frumvarpi, eru góð. Hins vegar áréttuðu menn, og það er eitthvað sem við eðli málsins samkvæmt þurfum að lifa við eftir EES-samningnum, að við verðum að vera innan þess ramma sem sá samningur býður upp á.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þær viðtökur sem frumvarpið hefur fengið og ég vonast til að hv. nefnd fari vel yfir málið. Þetta er afskaplega mikilvægt mál og það sem við erum að gera hér er ekki sjálfgefið og ekki einfalt, þ.e. að opna markaðinn. Ég hef ekki fengið annað en jákvæð viðbrögð við því og ég vek athygli á því enn og aftur að það er ekkert í þessu sem ekki hefur verið framkvæmt á öðrum stöðum. Það er heldur ekkert í frumvarpinu sem bendir til þess að það sem hér er lagt fram muni á neinn hátt slaka á þeim faglegu kröfum sem við gerum og við viljum gera.

Eins og ég nefndi áðan þegar ég var að fara yfir það sem gert hefur verið á undanförnum mánuðum þá liggur það fyrir að miðað við það þá erum við búin að ná niður kostnaði sem nemur hundruðum milljóna á ekki lengri tíma og án lagabreytinga. Því skiptir afskaplega miklu máli að við séum vakandi í þessu ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem við viljum ná en það er að hér sé heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða og þá verðum við að sjá til þess að við nýtum þá fjármuni sem allra best og þetta frumvarp er einn liður í því.