135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[15:17]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra talaði um mun á póstverslun og netverslun í tengslum við ræðu mína áðan varðandi fölsuð lyf. Kannski gerir fólk ekki mikinn greinarmun á póstverslun og netverslun ef það notar netið á annað borð til þess að panta sér lyf. Þess vegna er mjög mikilvægt að til séu sterkar, góðar og traustar reglur um póstverslun eins og hún er sett upp í þessu frumvarpi og sem farið verður eftir í framtíðinni.

Málið er nefnilega að töluvert mikið er um fölsuð lyf í heiminum. Metið hefur verið að 10% allra lyfja sem eru seld í heiminum eru fölsuð eða hafa engin lyfjafræðileg áhrif. Þessi lyf hafa verið metin upp á 32 milljarða bandaríkjadollara sem eru töluvert miklir peningar. Það er því ákveðin hvatning í því að koma fölsuðum lyfjum á markað. Vissulega hefur netverslun aukið aðgengi að fölsuðum lyfjum og við þurfum að gæta okkur mjög því að í henni eru m.a. aðilar sem stunda glæpastarfsemi.

Aðalatriðið er að við heimilum póstverslun sem er háð ströngum skilyrðum. Oft gerir fólk ekki mun á póstverslun eða netverslun en munurinn þarf að vera alveg skýr. Ég tel að við þurfum m.a. að skoða betur þau viðskipti sem fara í gegnum netverslun, lyf sem eru þá flutt til landsins án þess að fara í gegnum (Forseti hringir.) viðurkennda aðila.