135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

hlutafélög og einkahlutafélög.

468. mál
[15:27]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, einföldun reglna um greiðslu hlutafjár í öðru heldur en reiðufé o.fl.

Með lagafrumvarpi þessu, sem samið hefur verið í viðskiptaráðuneytinu, er stefnt að því að breyta til einföldunar reglum í lögum um hlutafélög. Jafnframt er stefnt að því að breyta að nokkru leyti reglum í lögum um einkahlutafélög viðvíkjandi greiðslu hlutafjár í öðru en reiðufé o.fl. við stofnun eða hlutafjárhækkun án þess þó að slíkt dragi úr vernd hluthafa og lánardrottna. Auk þess eru reglurnar um eigið fé hlutafélaga rýmkaðar. Er þá tekið mið af óbindandi ákvæðum í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 6. september 2006 um breytingu á tilskipun um stofnun hlutafélaga og tilskilið hlutafé þeirra og breytingar á því. Jafnframt var tækifærið nýtt til að einfalda kröfur um heimili félags í samþykktum þess.

Markmiðið með frumvarpinu er að gera ýmsar breytingar til einföldunar á núgildandi lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Jafnframt eru reglur rýmkaðar um eigið fé hlutafélaga. Einföldun reglnanna felst fyrst og fremst í því að ekki er í sérstökum tilvikum krafist sérfræðiskýrslu þegar hlutir í hlutafélögum eru greiddir í formi verðbréfs eða peningamarkaðsskjals eða þegar verðmæti greiðslu fyrir hluti kemur beint fram í endurskoðuðum lögmætum ársreikningi. Geta ákvæðin einfaldað meðferð mála í hlutafélögum, lækkað kostnað og aukið samkeppnishæfni þessara félaga.

Í lögum um hlutafélög eru ekki gerðar sömu kröfur og í lögum um einkahlutafélög, þ.e. ekki er krafist sérfræðiskýrslu þannig að reglur frumvarpsins hafa minna gildi hvað einkahlutafélögin snertir. Vísa ég um þetta til athugasemda við 9. gr. frumvarpsins um yfirlýsingu löggilts endurskoðanda eða lögmanns um skýrslu varðandi greiðslu hlutafjár í öðru en reiðufé.

Ég vil taka fram að frumvarp þetta er í stórum atriðum byggt á drögum að norsku lagafrumvarpi varðandi innleiðingu á framangreindri EES-gerð.

Hvað snertir ákvæði 1. gr. um verðbréf, t.d. hlutabréf og skuldabréf samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, svo og peningamarkaðsskjöl, þ.e. ríkisvíxla, innlánsviðskipti og viðskiptabréf að undanskildum greiðsluskjölum samkvæmt sömu lögum, skal tekið fram að ekki er talin þörf á því að ákvarða verðmæti verðbréfanna eða peningamarkaðsskjalanna á nýjan leik með sérfræðiskýrslu nema í algjörum undantekningartilvikum samkvæmt lögum um hlutafélög. Sama gildir um verðmæti samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi. Þar eð verðmætin hafa verið staðfest í endurskoðuðum ársreikningi greiðanda er með öðrum orðum almennt talið óþarfi að endurtaka staðfestinguna í sérfræðiskýrslu. Því er aflétt að kalla þurfi sérstaklega eftir slíkri skýrslu við þessar tilteknu aðstæður sem hérna eru nefndar.

Í ákvæðum 3. gr. frumvarpsins um heimili félags felst að ekki muni þurfa að halda hluthafafund og breyta samþykktum svo og senda hlutafélagaskrá nýjar samþykktir ef breyting verður á aðsetri félagsins innan sama sveitarfélags. Þetta einfaldar meðferð mála og sparar félaginu fé, fyrirhöfn og tíma. Frumkvæðið að þessari jákvæðu breytingu kom frá hlutafélagaskrá.

Ákvæðið um eigin hluti í 6. gr. felur í sér að heimild hluthafafundar til handa félagastjórn til að eignast eigin hluti má veita til lengri tíma en nú er, það er til fimm ára í stað átján mánaða.

Að öðru leyti vil ég vísa til athugasemda með frumvarpi þessu.

Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að ekki verði séð að frumvarpið muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð ef það verður óbreytt að lögum.

Ég vænti þess virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til viðskiptanefndar.