135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[16:18]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ansi margt kemur fram í þessu stutta andsvari hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem mér er ljúft og skylt að fara yfir. Vafalaust á fleira eftir að koma fram í ræðu hans síðar og við getum þá brugðist við því í seinni ræðum okkar hér á eftir.

Ef við byrjum á stjórn fyrirtækisins þá er það alveg hárrétt að ætlast er til þess að samgönguráðherra skipi hana einn eins og önnur opinber hlutafélög sem heyra undir samgönguráðuneytið. Nefni ég þar Póstinn sem dæmi af því ég er nýbúinn að skipa þar fulltrúa, þar á meðal ágætis fulltrúa frá vinstri grænum.

Varðandi slökkviliðið, stéttarfélögin og annað vil ég bara segja að í gær átti ég fund suður í Keflavík með starfsfólki þar. Það var mjög góður fundur. Við vorum spurð út úr og fólkið fékk auðvitað að segja sínar skoðanir. T.d. kom fram að innan samgönguráðuneytisins er nú að fara í gang vinna sem mun taka betur á ýmsum þáttum, m.a. nokkrum þáttum sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni.

Við sögðum að það væri ætlun okkar að vinna þetta vel með því starfsfólki sem þarna er. Ég hef óskað eftir samvinnu við starfsfólkið — sem er mesti auður þessa fyrirtækis og fyrirtækið stendur og fellur með því — um vinnuna við breytingarnar sem hér er verið að boða.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að þessi fundur var mjög góður. Ég er alveg sannfærður um að í þeirri vinnu sem fram undan er hjá okkur munum við klára þau mál sem að samgönguráðuneytinu snúa auk þess sem samgöngunefnd mun vafalaust taka á móti öllu þessu fólki á fundinum.