135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[16:34]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er komið mál sem ég er ekki algjörlega ókunnug. Í minni tíð sem utanríkisráðherra var unnið að tillögum um framtíðarskipan mála hvað varðar Keflavíkurflugvöll í tengslum við þær breytingar sem urðu þegar herinn fór. Það gjörbreytti náttúrlega stöðunni. Við stóðum frammi fyrir þeim breytingum að utanríkisráðuneytið hafði engar forsendur til að vera með forsvar yfir þeim miklu mannvirkjum og þeirri miklu starfsemi sem fer fram á vellinum sjálfum og í flugstöðinni.

Ég held að það sé augljóst, ég hélt að í sjálfu sér væri ekki ágreiningur um það, að flugrekstur sem slíkur og alþjóðleg starfsemi sem þessi eiga ekki erindi í utanríkisráðuneytið. Þess vegna var unnið að breytingum og við höfðum nokkurn veginn komist að niðurstöðu um að fara þessa leið á meðan ég var í utanríkisráðuneytinu og í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Ég ber ekki ábyrgð á því sem gerist eftir kosningar. Ég ætla ekki að taka á mig neina ábyrgð í þeim efnum, þar taka önnur stjórnvöld við. Miðað við ræðu síðasta hv. ræðumanns hefði verið hægt að standa betur að málum og get ég tekið undir það að hluta til þó ég ætli ekki að tala gegn því að sú leið verði farin að breyta um rekstrarform og að um opinbert hlutafélag verði að ræða. Ég held að það sé eðlilegasta formið á þessum rekstri, ekki síst þegar haft er í huga að breyting á Flugstöð Leifs Eiríkssonar í hlutafélag tókst ákaflega vel.

Það var ekkert smástríð sem þurfti að fara í á hv. Alþingi til þess að ná þeirri breytingu fram, að breyta Flugstöð Leifs Eiríkssonar í hlutafélag. Það væri svo sem hægt að rifja upp ýmislegt sem sagt var á þeim tíma af hálfu stjórnarandstöðunnar sem þá var í landinu en ég ætla ekki að tefja tímann með því, það bætir ekkert úr því sem við stöndum frammi fyrir núna. En ég vil taka það fram, hæstv. forseti, í upphafi að niðurstaða hafði náðst um þetta fyrirkomulag og þetta rekstrarform á meðan Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn. (Iðnrh.: Það var góð tíð.) Það var nú góð tíð já. Það er rétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra.

Í frumvarpinu eru ýmis atriði sem ég vil engu að síður koma inn á stuttri ræðu. Áður en ég geri það vil ég gjarnan fá að segja að ég tel að heilmikil tækifæri felist í þeirri breytingu sem fram undan er vegna hnattrænnar stöðu Keflavíkurflugvallar. Hægt er að byggja upp flugsækna starfsemi, eins og það kallast, á þessum alþjóðlega flugvelli. Þá er mikilvægt að nýta öll tækifæri sem gefast, ekki síst með tilliti til þess að fjölga störfum á svæðinu sem vissulega fækkaði mikið við brotthvarf hersins.

Í 7. gr. er fjallað um öryggis- og varnarmál og hið nýja félag sem hér um ræðir fær ákveðið hlutverk í þeim efnum og virða þarf og standa við þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar á ýmsum sviðum. Hæstv. samgönguráðherra er náttúrlega rekstrarstjórinn í því mikla fyrirtæki sem þarna um ræðir og ber ábyrgð á rekstrinum. Miðað við þau orð sem hann lét falla hér í gær, þegar spurt var um það ástand sem nú ríkir og er fram undan vegna ástands lögreglunnar þar, var ekki eins og hann hefði áttað sig á því að hann hefði miklu hlutverki að gegna. En ég vil ítreka að svo er.

Í 8. gr. er fjallað um skipulagsmálin. Það vekur athygli að helmingur nefndarmanna í þessari skipulagsnefnd er frá sveitarfélögunum. Ég velti því fyrir mér hvort það sé skynsamlegt og nákvæmlega hverjar ástæðurnar eru fyrir því að sveitarfélögin hafi svona sterka stöðu í þessu félagi sem hefur þennan gríðarlega mikilvæga rekstur með höndum. Ég spyr um skýringar á því. Ég vil líka koma þeirri hugmynd að hvort ekki sé rétt að félagið sem slíkt eigi fulltrúa í skipulagsnefndinni. Ég held að þar sé mikil þekking sem sé mikilvægt að geti skilað sér alla leið. Það er eitt af því sem ég tel að hv. nefnd eigi að skoða.

Svo er það eitt, hæstv. forseti, ég get ekki áttað mig á því hvað þetta félag á að heita. Getur hæstv. ráðherra greint frá því hvað barnið á að heita? Ég held að það hljóti að skipta máli í þessari umræðu eða alla vega áður en við ljúkum umfjöllun um málið. En talandi um að ljúka umfjöllun um málið þá heyrist mér að það liggi dálítið mikið á að klára meðferðina hér á hv. Alþingi miðað við það að félagið eigi að hefja rekstur þann 1. júní nk. Ég velti því þar af leiðandi fyrir mér hvers vegna málið kemur svona seint inn í þingið, ekki síst þegar upplýst hefur verið að þessi langi tími hefur ekki verið notaður til að vinna með stéttarfélögunum miðað við orð síðasta ræðumanns.

Ég vil líka nefna að fasteignaskatturinn, sem innheimtur hefur verið, hefur, eins og lög gera ráð fyrir, gengið til sveitarfélagsins Sandgerðisbæjar. Málaferli hafa orðið vegna þessa fasteignaskatts sem snerist um það að flugstöðin taldi ekki að sveitarfélagið veitti þjónustu á móti þeim gjöldum sem um var að ræða og flugstöðin vann það mál. Ég spyr hvort frá því sé gengið að þessu fyrirtæki verði veitt þjónusta af hálfu sveitarfélaganna frekar en verið hefur. Fasteignaskattar eru ekki bara tekjuöflun sveitarfélaganna, á móti þarf að sjálfsögðu að koma þjónusta.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið á þessu stigi málsins. Ég ítreka að það er brýnt að gera breytingu á fyrirkomulaginu vegna þeirra breytinga sem urðu með brotthvarfi hersins. Frumvarpið endurspeglar þá meginstefnu sem uppi var í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Ég stend því að sjálfsögðu, og minn flokkur, að málinu að öðru leyti en því að við getum gert við það athugasemdir, m.a. þær sem komið hafa fram í þessari ræðu minni.