135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[17:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um stéttarfélögin. Það er staðreynd, ég get upplýst hæstv. ráðherra um það, að þau kvarta yfir samráðsleysi. Það hafa vissulega farið fram fundir þar sem starfsmenn eru boðaðir, og hæstv. ráðherrann vísaði í slíkan fund í gær, en ég er að tala um skipulegt samráð við stéttarfélögin um að leiða til lykta ýmis álitamál sem í þessu efni eru greinilega ófrágengin.

Í öðru lagi varðandi slökkvilið, að ekki sé saman að jafna slökkviliði á flugvelli og í bæ. Mig brestur þekkingu til að tala um þetta en verð þó að segja að flugvöllur er eitt helsta öryggishlið þjóðarinnar og við skulum ekki gera lítið úr því hvernig öryggismálum þar er hagað. Við erum með þrjá alþjóðaflugvelli eða fjóra, Egilsstaði, Akureyri, Reykjavík og Keflavíkurflugvöll. Stærsti flugvöllurinn er að sönnu Keflavíkurflugvöllur og það þarf að hyggja vel að því og gæta þess að við sláum ekki af kröfunum, að við lækkum ekki þá öryggiskvarða sem eru fyrir hendi.

Að lokum, hæstv. forseti, um óttann og hræðsluna, annars vegar um hinn óttalausa hæstv. ráðherra og hins vegar um hinn hrædda mann sem hér stendur. Ég er ekkert hræddur við hlutafélög, ég er hlynntur hlutafélögum þar sem þau eiga við, þar sem um er að ræða hluthafa sem veita aðhald. Til þess eru hlutafélög smíðuð. Ég er að vekja athygli á því að í þessu tilviki verður einn hluthafi með eitt hlutabréf sem verður sett undir þann hæstv. ráðherra sem hér situr. Ég er að andæfa svona hlutafélögum. (Forseti hringir.) Þungamiðjan í mínum málflutningi er að andæfa þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð í þessu máli.