135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfslok forstjóra Landspítala.

[15:19]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér er auðvitað öllu snúið á haus. Hér er komið með dylgjur og fullyrðingar og svo er sagt: Ef hann getur afsannað það forsætisráðherrann þá skal hann sko reyna að gera það hér.

Málið er auðvitað það að atriðið sem ég vék að og ekki var hægt að ná fram í samstarfi við Framsóknarflokkinn en er hægt að ná fram í samstarfi við Samfylkinguna eru breytingarnar á sjúkratryggingunum sem eru í vinnslu núna og er að hluta til búið að afgreiða á Alþingi en að hluta til á eftir að afgreiða eins og við vitum. Það er verkefni sem við þurfum að ljúka á vorþinginu.

Forstjórastarfið á Landspítalanum hefur nákvæmlega ekkert með það að gera. (Gripið fram í.) Það hefur nákvæmlega ekkert með það að gera. Sjúkratryggingar, já. Er fólk búð að gleyma því að Tryggingastofnuninni var skipt upp í tvennt með lögum fyrir jólin? Lífeyristryggingarnar fóru í félagsmálaráðuneytið, sjúkratryggingunum á að breyta í sérstaka innkaupastofnun, sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur valið alls kyns ósmekkleg heiti á. Það hefur ekkert að gera með forstjórastarfið á Landspítalanum. (ÖJ: Er forsætisráðherra búinn að gleyma eigin orðum í Valhöll í september?)