135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

málefni lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum.

[15:20]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem þess ráðherra sem fer með æðstu yfirstjórn tollamála. Fyrirspurnin lýtur að lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum en fyrir nokkrum vikum, tveimur vikum eða svo, kom fram fréttatilkynning þess efnis að skipta ætti embættinu upp, þ.e. að greina á milli lögreglu, tollsins og flugverndarinnar.

Ég ætla ekki að gera athugasemd við það þó að breytingar séu gerðar á einstaka stofnunum en hins vegar geri ég ríkar kröfur til þess að það sé vandlega og faglega undirbúið þegar verið er að breyta opinberum stofnunum og embættum.

Ég geri engar athugasemdir við það að flugverndin sé tekin frá því embætti sem hún hefur heyrt undir, þ.e. lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum, en ég held að það sé afar mikilvægt að við ræðum aðskilnað tollsins og lögreglunnar á Suðurnesjum einkum í ljósi þess að það samstarf hefur tekist mjög vel. Embættið hefur jafnvel fengið viðurkenningar frá fjölmiðlum og fleirum þar sem starfsmenn þess hafa verið valdir menn ársins í störfum sínum. Þegar verið er að brjóta slíka hluti upp er mjög mikilvægt að það sé gert að vandlega yfirveguðu ráði og að við eyðum ekki þeim samlegðaráhrifum sem í þessu felast. Það er líka ljóst að þessar breytingar kalla á breytingar á lögum.

Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort fyrir dyrum standi að breyta lögum eða hvernig málið liggur. Ég held að það sé afar mikilvægt að þetta liggi skýrt fyrir. Þetta hefur kallað á mikinn (Forseti hringir.) óróa á þessu svæði og ég því kalla ég, virðulegi forseti, eftir skýringum hæstv. fjármálaráðherra.