135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[15:29]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér er ljúft og skylt að segja frá því að frá því að sú hugmynd kom fram bæði í borgarstjórn og annars staðar um frekari könnun á lestarsamgöngum til Keflavíkur, um léttlest þangað eða lestarsamgöngur innan Reykjavíkurborgar, þá höfum við í samgönguráðuneytinu að sjálfsögðu tekið vel í að skoða það atriði og koma með Reykjavíkurborg að því máli. Hins vegar fannst mér dálítið mikið í lagt ef það ætti að kosta 20 millj. eins og ég skildi það fyrst. Ég verð að segja alveg eins og er að ég horfði svolítið í þá peninga. En nýjustu upplýsingar mínar eru þær að hjá borginni séu menn að tala um miklu minni fjármuni. Ég minni líka á að á vegum Reykjavíkurborgar var þetta gert fyrir nokkrum árum og þar var komist að ákveðinni niðurstöðu. Það var m.a. niðurstaðan að jafnvel þótt allur stofnkostnaður af léttlest til Keflavíkur yrði greiddur niður hefði slíkt samt sem áður ekki rekstrargrundvöll. Hins vegar er sjálfsagt að skoða það betur hvort eitthvað nýtt er komið fram sem bætir þessar hugmyndir.

Ég held að það sé á morgun frekar en á miðvikudag sem áhugasamir aðilar um þetta mál koma með erlendan aðila, sem væntanlega er þá umboðsaðili við að fylgja svona hlutum fram, í ráðuneytið til að kynna þau sjónarmið sem uppi eru. Samgönguráðuneytið er því til í þessa vinnu með Reykjavíkurborg eins og auðvitað í allt sem lýtur að samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.

Aðeins varðandi almenningssamgöngurnar. Það er að sjálfsögðu þannig og það væri óskandi að þær yrðu meira nýttar sérstaklega nú á tímum hás orkuverðs. Nefnd sem fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra skipaði er um það bil að ljúka störfum og skilar skýrslu til ráðuneytisins um almenningssamgöngur í landinu og það á eftir að fara yfir hana. En má ég svo líka geta þess, virðulegi forseti, að ég hef óskað eftir því við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að þau tilnefni aðila frá sér í samráðsnefnd með samgönguráðuneytinu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Samtök sveitarfélaga hafa tilnefnt fulltrúa í þann hóp (Forseti hringir.) og við erum klár líka. Fyrsti fundur hans verður haldinn eftir u.þ.b. 10 daga og þá verða almenningssamgöngumál rædd ítarlega.