135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

5. fsp.

[15:34]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil gera að umræðuefni þá grafalvarlegu stöðu sem nú einkennir húsnæðismarkaðinn og ræða í leiðinni við hæstv. félagsmálaráðherra um málefni Íbúðalánasjóðs. Það dylst engum að mikil kólnun á sér stað á húsnæðismarkaðnum og einnig gríðarlegur samdráttur í sölu. Margir sitja uppi með mjög dýrar húseignir vegna þess að bankarnir eru að miklu leyti hættir að lána fé til húsnæðiskaupa. Í dag er Íbúðalánasjóður nær eini aðilinn á markaðnum sem lánar að einhverju marki til húsnæðiskaupa. Það er því eðlileg spurning, hæstv. forseti, hvort ríkisstjórnin þurfi ekki að bregðast við því ástandi sem nú er uppi á húsnæðismarkaðnum, sérstaklega á suðvesturhorni landsins þar sem fólk getur hvorki keypt né leigt húsnæði.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga:

Hvenær hyggst ríkisstjórnin hækka hámarkslán hjá Íbúðalánasjóði, sem er allt of lágt í dag?

Hvenær hyggst hæstv. ráðherra breyta þeirri ákvörðun sinni að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 80% í 90%?

Hvenær hyggst hæstv. ráðherra afnema tengingu við brunabótamat sem hamlar svo lánveitingum Íbúðalánasjóðs á höfuðborgarsvæðinu að það samræmist ekki raunveruleikanum eins og hann er í dag?

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn höfum staðið vörð um Íbúðalánasjóð og við höfum talað fyrir því hér á þingi að styrkja hann. 90% þjóðarinnar vilja áfram sjá öflugan og stöndugan Íbúðalánasjóð og allir fasteignasalar standa þétt við bakið á Íbúðalánasjóði.

Það er því eðlilegt að spyrja: Af hverju bólar ekkert á aðgerðum hjá hæstv. ríkisstjórn í þessum mikilvæga málaflokki, þegar ástandið er eins og það er í dag á húsnæðismarkaðnum?