135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

5. fsp.

[15:36]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað full ástæða til að taka undir það að staðan á fasteignamarkaðnum er mjög alvarleg, eins og almennt á fjármálamörkuðum. Sem húsnæðismálaráðherra fylgist ég mjög grannt með því sem þar er að gerast og það er alveg ljóst að eins og staðan er núna er einfaldlega mjög erfitt að festa kaup á íbúð og eignast þak yfir höfuðið því að verð á fasteignamarkaði er mjög hátt. Það er líka mjög erfitt að fara út á leigumarkaðinn vegna hárrar leigu. Það er vandmeðfarið hvernig rétt er að standa að því að reyna að lyfta upp fasteignamarkaðnum. Hvenær er tímasetningin eðlileg og rétt í því efni?

Hv. þingmaður veit að það hefur verið nefnd að störfum sem hefur skoðað leiðir til að bæta stöðuna, ekki bara á almenna markaðnum heldur líka á leigumarkaðnum. Sumar af þeim tillögum sem snúa að leigumarkaðnum komu fram við gerð kjarasamninga, t.d. um hækkun á húsaleigubótum og sérstakar húsaleigubætur, svo dæmi sé nefnd.

Ég vona að við getum fyrr en síðar hrundið þeim aðgerðum sem snúa að hækkun á húsaleigubótum í framkvæmd. Enn er sú staða uppi að ekki hefur náðst samkomulag milli ríkis og sveitarfélaganna um skiptingu á þeim kostnaði sem leiðir af hækkunum á húsaleigubótum. Það er mjög mikilvægt að grípa til aðgerða sem breyta þeirri stöðu sem er uppi á leigumarkaðnum.

Varðandi almenna markaðinn þá hef ég ekki enn treyst mér til að setja í gang aðgerðir sem fjölga þeim íbúðum sem fara á markaðinn, einfaldlega vegna þess að vaxtastigið er enn mjög hátt og það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvort það gæti haft óæskileg áhrif á markaðinn ef einhver innspýting kemur, t.d. til þess að breyta stöðu fyrstu íbúðarkaupenda og auðvelda þeim að kaupa sér fasteign. En þetta er allt í athugun og ég fullvissa hv. þingmann um að ég fylgist mjög grannt með stöðunni á fasteignamarkaðnum.