135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

5. fsp.

[15:38]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Um mitt síðasta ár sagði hæstv. ráðherra að það ríkti neyðarástand á húsnæðismarkaðnum. Það var nú hvorki meira né minna þá. Síðan var málið sett í ákveðinn farveg eða í nefnd, eins og víðfrægt er, en enn bólar ekkert á neinum marktækum tillögum frá ríkisstjórninni í húsnæðismálum, því miður, þrátt fyrir að alltaf sé verið að skoða málin, það eru fögur fyrirheit um að fella niður stimpilgjöld, en síðan gerist ekkert í þeim málaflokkum. Þegar ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beita sér með marktækum aðgerðum til að styrkja stöðu Íbúðalánasjóðs í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem nú er á markaðnum, þá fæ ég engin svör.

Hæstv. forseti. Fólk getur ekki beðið og beðið eftir því að ríkisstjórnin sé alltaf að skoða einhverja hluti. Við hljótum að heimta raunverulegar aðgerðir vegna þess að fólk úti í bæ glímir við mikla erfiðleika vegna þess að hér skortir húsnæði en að hafa húsnæði er eitt af þeim grundvallarmannréttindum sem hver maður á að njóta. Það er því miður að hæstv. ráðherra skuli ekki svara neinum af spurningum mínum heldur segja að áfram eigi að skoða málin eins og gert hefur verið síðustu níu mánuði.