135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

upprunaábyrgð á raforku.

271. mál
[15:46]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og fram kemur í nefndarálitinu skrifaði fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs undir það nefndarálit með fyrirvara. Hér er um að ræða innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins, m.a. um útgáfu grænna vottorða um að raforka sé framleidd með endurnýjanlegum hætti. Spurningin er hins vegar hvernig það hugtak er skilgreint. Það er ekki sjálfgefið að öll raforka sem framleidd er með vatnsafli eða jarðvarma sé endurnýjanleg.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu styðja þetta frumvarp á þeim grunni og miðað við þá mælikvarða sem Orkustofnun hefur lýst, m.a. í nefndinni, um það hvað teljist sjálfbær nýting jarðhitasvæða. Við munum fylgjast með því að því mati stofnunarinnar verði fylgt við framkvæmd laganna og gera í því efni ýtrustu kröfur.