135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[15:55]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Enn ræðum við efnahagsmál á Alþingi og nú við mjög erfiðar aðstæður eftir fall krónunnar og þá banka- og lánsfjárkreppu sem við blasir. Íslenska þjóðarskútan velkist nú í ólgusjó og ölduróti. Oft var þörf en nú er nauðsyn að spyrna við fótum og forða þjóðarvoða. Við svona aðstæður og óvissu þurfum við Íslendingar að eiga eina þjóðarsál.

Ég kýs í ræðu minni að ræða um raunhæfar leiðir til lausnar fremur en að hafa allt á hornum mér. Við framsóknarmenn sjáum grænt land handan erfiðleikanna. Með samstilltu átaki eru forsendur til að koma jafnvægi á í efnahagsmálum og þar með að koma í veg fyrir að allt fari úr böndunum. Með falli krónunnar og mikilli stýrivaxtahækkun Seðlabankans í kjölfarið mun verðbólga vaxa og getur fest sig í sessi. Við framsóknarmenn teljum að við slíkar aðstæður sé mikilvægt að ráðast í samstillt átak á mörgum sviðum til að slökkva verðbólgubálið og hefja vaxtalækkun sem fyrst. Við óttumst mjög að ríkisstjórnin ætli að láta reka á reiðanum og það verði almenningur og launafólk sem borgi brúsann. Við heyrum af fáránlegum viðbrögðum stórkaupmanna sem eru að boða sjálftöku í verðhækkunum í skjóli verðbólgu. Ríkisstjórninni ber við þessar aðstæður að setja af stað þjóðarsáttarnefnd með aðilum vinnumarkaðarins, verkalýðs, atvinnulífs, sveitarfélaga, bændasamtaka, banka og fjármálamarkaðar. Þessi hópur vinni með ríkisstjórninni að nokkurs konar neyðaráætlun um aðgerðir.

Lausatök ríkisstjórnarinnar blasa við, forsendur fjárlaga eru brostnar. Við teljum að vorþingið eigi á ný að fara yfir fjárlög þessa árs. Nýgerðir kjarasamningar eru í uppnámi. Stærsta málið við svona aðstæður er að auka útflutningstekjur þjóðarbúsins og hlúa að innlendri framleiðslu. Allt tal formanns Samfylkingarinnar eru blekkingar um að ætla nú að rústa íslenskan matvælamarkað með stórfelldri tollalækkun. Enn fremur skil ég ekki hvers vegna Samfylkingin hafnar alfarið erlendri fjárfestingu upp á tugi milljarða í Helguvík og á Húsavík. Það kann að vera skynsamlegt að sem fyrst verði ráðist í aðra hvora þessa framkvæmd. Norðurál kom inn á réttum tíma upp úr aldamótunum. Hver væri staðan nú ef gjaldeyristekjurnar af álveri á Reyðarfirði væru ekki fyrir hendi? Ég spyr.

Íslendingum ber nú að hlúa að innlendri framleiðslu, auka tekjur, minnka útgjöld. Ég heyri í mörgum sjómönnum og útgerðarmönnum um allt land, sjór er fullur af vænni þorski en áður. Ég skora á sjávarútvegsráðherra að meta stöðuna á ný og ég trúi því að kvótann megi auka um 20–30 þúsund tonn sem fyrst. Aðgerðirnar snúi síðan að því að ríkissjóður í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins beiti sér fyrir sátt um aðgerðir til að draga úr verstu áhrifum efnahagskreppunnar, dýpt hennar og lengd. Forsendur fjárlaga verði tafarlaust endurskoðaðar. Sérstakir neysluskattar verði lækkaðir eða felldir í brott til þess að lækka verðbólgu. Er þar einkum horft til lækkunar álags á eldsneyti og niðurfellingar virðisaukaskatts á matvæli og stimpilgjalds. Sett verði aukið fjármagn til sameiginlegs átaks eftirlitsaðila, markmiðið verði öflugt verðlags- og verðmerkingareftirlit sem leiði til aukinnar samkeppni á íslenskum mörkuðum, í íslenskum verslunum.

Hæstv. forseti. Margir veikleikar eru í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir. Knýr þar sérstaklega harkalega dyra tvíþætt vá sem er brýnt að bregðast hratt og skjótt við. Annars vegar eru efasemdir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um að íslenskar fjármálastofnanir geti staðið við skuldbindingar sínar. Hins vegar er hafinn samdráttur í íslenskum þjóðarbúskap með tilheyrandi minnkun kaupmáttar. Fyrri váin er ný í íslenskri efnahagssögu síðari ára. Hin síðari er gamalkunnur óvinur. Sé ekki brugðist við með skynsamlegum og ákveðnum hætti getur þessi tvíþætta ógn leitt til dýpri og langærri efnahagskreppu á Íslandi en við höfum sé mjög lengi. Hún getur jafnframt rýrt alvarlega það efnahagslega traust sem þjóðin hefur áunnið sér erlendis með áratuga skilvísi. Slíkt traust er fjárhagslega mjög mikilvægt og bíði það hnekki er erfitt og mjög seinlegt að vinna það til baka.

Því miður er ekki sjáanlegt að ríkisstjórnin taki á þessum vanda með þeirri festu, skilningi og útsjónarsemi sem nauðsynleg er. Því teljum við framsóknarmenn óhjákvæmilegt að taka hér visst frumkvæði og leggja fram meginlínur í þeim efnahagsvanda sem við blasir. Þessar efnahagsaðgerðir verða að beinast að hvoru tveggja, hinum mikla og afar brýna vanda í fjármálakerfinu og efnahagssamdrættinum sem hafinn er og getur, verði ekki skynsamlega brugðist við, orðið bæði dýpri og langvinnari eins og ég sagði áðan.

Eftirfarandi efnahagsaðgerðir miðast annars vegar við að styrkja fjármálakerfið og hins vegar að draga sem mest úr skaðvænlegustu afleiðingum fyrirsjáanlegrar efnahagskreppu. Þar sem þetta tvennt er tengt og hefur áhrif hvort á annað gildir það sama um margar þær efnahagsaðgerðir sem við leggjum til. Seðlabanki og ríkissjóður útvegi lán eða geri samkomulag við erlendan seðlabanka um lánalínu í erlendri mynt til þess að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans og styrkja krónuna og draga úr gengissveiflum, styðja við fjármálakerfi landsmanna sem nægir til að draga mjög verulega úr eða eyða þeirri óvissu sem er um greiðslugetu kerfisins. Undirbúa yfirtöku Íbúðalánasjóðs á fasteignalánum sem eru undir tilteknum fjárhæðarmörkum og koma þannig með félagslegum hætti að vanda tekjulægri hópa í samfélaginu. Í því skyni verði lögum og reglum Íbúðalánasjóðs breytt þannig að tenging lána við brunabótamat eigna verði afnumin og sjóðnum veittar rýmri heimildir til hámarkslána. Seðlabankinn tilkynni við fyrstu aðstæður um ferli vaxtalækkana, stýrivextir verði síðan lækkaðir hratt á næstu mánuðum. Stefnt verði að því að vaxtamunur miðað við helstu viðskiptaþjóðir okkar verði ekki nema plús/mínus 2% í framtíðinni.

Ég vil taka fram að ég tek undir efasemdir Vilhjálms Egilssonar um stýrivaxtastefnu Seðlabankans. Það bendir margt til að stýrivextir í 15% meðan allir seðlabankar vestrænna þjóða eru með stýrivexti á bilinu 1–5% valdi taugaveiklun og vantrú á íslenskri efnahagsstjórn. Það má velta því fyrir sér að sjúklingurinn sé á röngum meðulum og að vaxtaokrið auki sótthitann. (Forseti hringir.) Þessi mikli vandi leysist ekki af sjálfu sér, hæstv. forsætisráðherra. Ég tala enn fyrir þjóðarsátt og samstilltu átaki og þess vegna þjóðstjórnar við erfiðar aðstæður. Ég hvet ríkisstjórnina til dáða.