135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[16:03]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum í allnokkur skipti í vetur skipst á skoðunum um efnahagsmálin, ráðherrar í ríkisstjórninni og forustumenn stjórnarandstöðunnar. Það er eðlilegt að það sé gert, vegna þess að þessi mál hafa tekið örum breytingum á undanförnum vikum og mánuðum, breytingum sem við að mörgu leyti gátum ekki séð fyrir.

Það er að hægjast um í efnahagsmálum á Íslandi og það vissum við vegna þess að stórframkvæmdunum fyrir austan er um það bil að ljúka. Þá var það fyrirséð, og hefur verið í mörg ár, að það mundi hægjast um. Það er ekki óeðlilegt og það er heldur ekki óæskilegt við þær aðstæður sem uppi hafa verið.

Það sem er nýtt, eins og ég hef áður rakið í þessum ræðustól, eru aðstæðurnar sem skapast hafa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og bitna á fleiri aðilum en okkur Íslendingum. Þó bitna þær á fjármálastofnunum okkar með óeðlilegri hætti en víða er annars staðar og gerir þeim erfitt fyrir að stunda viðskipti sín og það mun auðvitað segja til sín hér innan lands með einhverjum hætti.

Það sem er að gerast á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er afleiðing af óábyrgri stefnu ýmissa bankastofnana og fjármálafyrirtækja sem voru að leika sér að því að búa til svokallaða skuldabréfavafninga, vefja inn í það alls kyns lánum og lána síðan aðilum sem menn máttu vita að gætu ekki staðið í skilum. Þar sem alþjóðahagkerfið er orðið opið, samþætt og alþjóðavætt hafa slíkir gjörningar á einum stað umsvifalaust áhrif alls staðar annars staðar. Miðað við það hversu bankakerfið okkar er orðið opið og ríkur þátttakandi í alþjóðlegum fjármálaviðskiptum hlaut þetta að hafa sín áhrif á starfsemi þess.

Vandinn núna er tvenns konar. Í fyrsta lagi er lausafjárkreppa um allan heim. Hún birtist okkur hér á Íslandi í því að bankarnir eiga erfitt fyrir varðandi það að afla sér nýs lausafjár til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Reyndar standa þeir tiltölulega vel að vígi miðað við ýmsa aðra en þetta er eigi að síður fyrirsjáanlegt vandamál. Á Íslandi hefur það síðan gerst á síðustu vikum að komið hefur upp óvæntur skortur á gjaldeyri sem hefur haft það í för með sér að krónan hefur fallið. Ekki hefur verið eftirspurn eftir henni og ekki hefur verið framboð á erlendum gjaldeyri á gjaldeyrismarkaðinum. Um þetta má margt segja en hitt lá fyrir að eftir að stórframkvæmdum lauk á Austurlandi mundi gengi krónunnar að öllum líkindum hafa lækkað. Við áttum von á því að gengi krónunnar mundi lækka vegna þess að miðað við efnahagsaðstæðurnar hér má hiklaust halda því fram að það hafi verið of hátt skráð á undanförnum mánuðum og missirum. Það kom því ekki á óvart. En það kom á óvart hversu skyndilega þessi gengisbreyting varð og því hefur verið fleygt að að einhverju leyti hafi annarlegir hlutir verið þar á ferð — ég skal ekki fullyrða neitt um það. Við vitum ekki hvort slík breyting er varanleg en það er hins vegar ánægjulegt að í dag, á fyrsta viðskiptadegi eftir ársfund Seðlabankans, skuli krónan hafa styrkst nokkuð myndarlega og hlutabréfamarkaðurinn hér á Íslandi sömuleiðis. Það bendir til þess að botninum sé náð í þessum efnum.

Gengisfellingin hefur hins vegar gamalkunn áhrif. Hún styrkir útflutningsgreinarnar í sessi, hún bætir afkomu sjávarútvegsins, hún bætir afkomu álfyrirtækjanna og gerir það að verkum að sjávarútvegurinn mun til að mynda fara auðveldar í gegnum þá aðlögun sem hann þarf að fara í gegnum varðandi skerðingar á þorskaflakvótanum. En gengisfellingin hefur því miður líka þau áhrif að verð á innfluttum varningi hækkar. Frammi fyrir því vandamáli stöndum við núna. Ef gengisbreytingin er tímabundin að því leyti til að hún muni ganga til baka að einhverju marki er nauðsynlegt að skora á alla þá sem eitthvert vald hafa yfir verðlagi hér á Íslandi að þeir haldi aftur af sér á meðan og láti ekki verðlagið innan lands hækka samstundis á meðan ekki sér fyrir endann á þessari þróun. En ekki má gleyma því að innflutningsverðlagið sjálft er líka í mörgum tilfellum að hækka og það höfum við séð varðandi eldsneytishækkanir á alþjóðlegum mörkuðum, varðandi matvælahækkanir og ýmislegt fleira sem varðar hrávöruviðskipti. Höfuðskýringin á þessu er sú hversu veikur bandaríkjadollarinn hefur verið því að þessar afurðir eru oftast verðlagðar í þeirri mynt. Þegar hann lækkar hækkar verðið á þessum afurðum í dollurum talið.

Þetta er í stórum dráttum það sem hér hefur verið við að fást. Ef gengisbreytingin verður varanleg verðum við að sætta okkur við að einhver kúfur mun koma í verðlagsmálum sem vonandi gengur hratt niður á seinni helmingi þessa árs. En þegar við undirbjuggum fjárlög síðasta árs gerðum við ráð fyrir því að um mundi hægjast og höfum því gert sérstakar ráðstafanir í ríkisfjármálunum til að mæta því. Ég hygg að þær framkvæmdir sem þar var gert ráð fyrir, sem eru uppbygging innviða sem við ætluðum hvort eð er að klára — við ætlum að klára vegina sem við erum að leggja um landið, við ætlum koma samgöngumálum í gott stand. Við jukum fjármagnið til þessara framkvæmda vegna þess að það var verið að minnka umsvif annars staðar í hagkerfinu. Það var alveg fyrirséð.

Það er hins vegar fáránleg kenning að halda því fram að ríkisstjórnin eða Seðlabankinn, yfirvöld í landinu, séu ekki að gera neitt út af því ástandi sem upp hefur komið. Fólk talar saman og vinnur vinnuna sína þó að ekki séu upphrópanir um það á hverjum einasta degi í fjölmiðlum. Bankinn undirbjó aðgerðir um páskahelgina og hafði um það gott samstarf við ríkisstjórnina, þ.e. þau atriði þar sem eðlilegt er að hafa slíkt samstarf. Að sjálfsögðu ekki um vaxtaákvörðunina vegna þess að hún er alfarið á ábyrgð bankans. En í framhaldi af þessum samtölum er ríkissjóður nú að gefa út ný skuldabréf og það er auðvitað ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera það þó að bankinn annist framkvæmdina fyrir hönd ríkissjóðs. Seðlabankinn hefur síðan, eins og aðrir seðlabankar um víða veröld, verið að gera ráðstafanir til að auka lausafé bankanna til að hlaupa undir bagga með þeim í þeirri lausafjárkreppu sem ég lýsti hér áðan.

Íslendingar eru ekki lengur eyland í alþjóðlegum viðskiptum. Það sem sagt er hér í þessum ræðustól eða á opinberum vettvangi getur haft áhrif á það sem gerist á mörkuðum sem varða fyrirtæki okkar. Menn verða því að gæta sín í málflutningi sínum ef þeir ætlast til þess á annað borð að vera teknir alvarlega. Ég vil þakka málshefjanda fyrir margt sem kom fram í ræðu hans, ekki síst það sem hann sagði í lokin um nauðsyn þess að menn taki höndum saman við aðstæður sem þessar. Það er nákvæmlega það sem ég sagði á ársfundi Seðlabankans og vitnaði til fyrr í dag. Við þessar aðstæður, þegar óvissan er eins og hún er, og þegar fjármálamarkaðir hreyfast með þeim hætti sem þeir gera, og eru okkur að mörgu leyti öndverðir, verða menn að taka höndum saman, allir þeir sem hlut eiga að máli. Það á við um ríkisstjórnina og stjórnarandstöðuna. Það á við um aðila vinnumarkaðarins, Seðlabankann og síðast en ekki síst á það við um sjálfa bankana sem eru kannski þeir aðilar sem helst verða fyrir barðinu á þessum aðstæðum.

Það er margt athyglisvert og merkilegt í gangi og í undirbúningi á vegum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans en ekki er hægt að segja frá því öllu fyrir fram. Ég treysti því að (Forseti hringir.) sá vilji sem kom fram í máli framsögumanns lýsi sér jafnframt í máli annarra úr stjórnarandstöðunni hér í dag.