135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[16:20]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér heilmikið alvörumál, sem er staða efnahagsmála þjóðarinnar og það áhlaup sem nú er gert að íslensku hagkerfi og íslensku fjármálakerfi.

En samt sem áður varð mér, sem ég sat hérna undir reiðilestri hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, hugsað til leikritsins um Kardimommubæinn og ræningjana þar þegar þeir voru að leita sér að ráðskonu og datt nú í hug Soffía frænka. Þá datt upp úr einum þeirra: En hún er alltaf svo reið. Soffía frænka hafði samt ákveðinn trúverðugleika í tiltektinni og þess vegna sóttu þeir hana. En hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki trúverðugleika í tiltektinni og þess vegna hefur hann ekki verið sóttur og settur til verka í efnahagsstjórn landsins.

Mér finnst mikilvægt að við tölum um þessi mál með þeim hætti að við reynum að snúa bökum saman og sjá hvaða leiðir eru færar í því í fyrsta lagi að verja heimilin í landinu, því það er auðvitað það sem við verðum að gera með því að berjast gegn verðbólgunni og þeirri vá sem af henni steðjar. Hins vegar, og það er auðvitað alveg nátengt, þurfum við að standa vörð um fjármálakerfið okkar og bankana okkar því að ef bankarnir okkar standast ekki það áhlaup sem nú er mun það hitta allan íslenskan almenning fyrir. Það er því mikilvægt að við snúum bökum saman og stöndum saman í þessu verkefni og reynum ekki að fara í eitthvert karp um það hverjum er um að kenna.

Ég get farið yfir það hvað sagt var í þessu ágæta hefti sem Samfylkingin gaf út fyrir kosningar um jafnvægi og framfarir og ábyrga efnahagsstefnu af því það var formaður Framsóknarflokksins sem hóf þessa umræðu hér. En í þessu hefti var einmitt sérstaklega um það getið og varað við þeirri hættu sem af því hlytist ef Ísland missti trúverðugleika sinn á alþjóðlegum fjármálamörkuðum með þeim afleiðingum að vaxtaálag hækkaði, gengið félli og verðbólgan héldi innreið sína. Það var einmitt varað við því í þessu hefti. Og því miður er þetta ekki bara núna yfirvofandi hætta, þetta er veruleiki sem við þurfum að takast á við.

Það sem hratt þessari atburðarás af stað, og hefur skapað okkur ómælda erfiðleika, er sú alþjóðlega lánsfjárkreppa sem hæstv. forsætisráðherra kom hér inn á og þetta ódýra erlenda lánsfé sem var notað til þess að fjármagna vöxtinn ekki síst á undanförnum árum. Það stendur ekki lengur til boða. Það bætist svo ofan á að spákaupmenn í fjarlægum heimshornum hagnast á hremmingum krónunnar, þessa minnsta sjálfstæða gjaldmiðils í heimi. Það vefst ekkert fyrir þeim, hvorki siðferðislega né fjárhagslega, að taka stöðu gegn krónunni. Það er ekkert spurt um heiður eða sóma í því sambandi. Það er bara spurt um auð og áhrif. Þarna verðum við auðvitað að taka á málum.

Það eru alveg þekktar leiðir til þess. Það er ekkert nýtt í þessari tillögu Vinstri grænna. Þetta er skuldabréfaútgáfan sem ákveðið hefur verið að fara út í, það er að stækka gjaldeyrisvaraforðann og það hefur verið ákveðið að gera það. En spurningin er með hvaða hætti og hvenær, menn eru ekki tilbúnir til þess að greiða það hvaða verði sem er. Og þó hér sé mikið skuldatryggingaálag á ríkissjóð er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að fara út og sækja fjármuni fyrir minna verð.

Það hefur líka verið talað um það að Seðlabankinn geri samninga við seðlabanka í öðrum löndum, taki lánalínur og dragi á þær. Þetta eru allt þekktar aðferðir í sjálfu sér og auðvitað hafa þær verið ræddar innan Seðlabankans, innan ríkisstjórnarinnar við aðila úti á markaðnum. Og það sem menn hafa þegar gert er að fara í skuldabréfaútgáfuna og menn hafa þegar gefið út þá yfirlýsingu að þeir séu tilbúnir að fara í að stækka gjaldeyrisvaraforðann en það er matsatriði hvenær það verður nákvæmlega gert og með hvaða hætti.

Það er alveg ljóst að senda þarf mjög skýr skilaboð til þeirra spákaupmanna sem nú gera áhlaup á íslensku bankana, að því áhlaupi verði hrundið. Að við séum alveg staðföst í því vegna þess að þar með erum við að hrinda árás sem er verið að gera á almenning í landinu, íslenskan almenning, fólkið hér í landinu. Við þurfum líka að takast á við verðbólguna og verðum að leita allra tiltækra ráða til að takast á við hana. Ekki er hægt að sætta sig við að menn séu að leita leiða til þess að hækka verðlag umfram öll tilefni sem til þess gefast.

Ég vil hins vegar nefna að þetta er bæði vandi sem við erum að takast á við til skamms tíma og til langs tíma og auðvitað verður ríkisstjórnin líka að skoða sín mál og það erum við að gera, m.a. með því að endurskoða framkvæmd fjárlaga og vinna að því að hér séu gerð rammafjárlög til fjögurra ára í senn og væntanlega koma fyrir vorið inn á þingið tillögur um það. Við höfum tekið upp og komið upp samráðsvettvangi við alla helstu aðila á sviði efnahags- og atvinnulífs um langtímastefnu í efnahagsmálum. Sá vettvangur hefur verið settur af stað. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að styrkja hann og standa betur þar að verki og það getum við gert og það er okkar að gera slíkt. Ég er líka fyllilega sammála því sem kom fram hjá forsætisráðherra á ársfundi Seðlabankans, að það er mikilvægt að gera úttekt á peningamálastefnu okkar, og þá erum við að tala um hluti sem eru til langs tíma. Fjögurra ára rammafjárlög, visst samráð við alla aðila efnahags- og atvinnulífs og úttekt á peningamálastefnu okkar.

En það er auðvitað ekki allt svart í þessum efnum því það sem hefur verið að gerast, m.a. í dag, er að markaðirnir eru upp hér á landi þrátt fyrir að svo sé ekki í löndunum í kringum okkur og gengið hefur verið að fara upp um 2,8% í dag. Ég segi bara: Guð láti á gott vita.