135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[16:34]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða mikilvægt mál og full ástæða til þess að ræða efnahagsmálin þar sem við stöndum frammi fyrir miklum vanda. Segja má að þessi vandi sé að sumu leyti vel útskýranlegur en að öðru leyti sé um vanda að ræða sem við hefðum ekki þurft að lenda í ef rétt hefði verið staðið að málum. Hér hefur verið mikill uppgangur og mikil framsókn í okkar samfélagi en nú má segja að ákveðin kreppa blasi við.

Í landinu situr ríkisstjórn sem er úrræðalaus og talar mikið út og suður. Nú höfum við hlustað á hæstv. forsætisráðherra flytja ræðu sem í sannleika sagt olli mér nokkrum vonbrigðum. Mér fannst frekar vera um fræðsluerindi um efnahagsmál að ræða, um þróun mála og stöðuna í dag, heldur en að fram kæmi einhver pólitísk stefna sem hann hefði getað fært þingheimi og þjóðinni. Hann fékk tækifæri til þess í ræðustóli áðan en gerði það ekki.

Vissulega sagði hæstv. forsætisráðherra í lok máls síns að fólk væri alltaf að tala saman og það er nú reyndar ágætt að heyra að fólk tali saman. En miðað við það sem kemur frá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar og fulltrúum stjórnarflokkanna er alveg ómögulegt að átta sig á því að fólk tali saman vegna þess að þar er talað út og suður.

Það sama má segja um Seðlabankann. Ég hef miklar efasemdir um að mikil samtöl eigi sér stað við Seðlabankann þótt ég geri mér vissulega grein fyrir því að Seðlabankinn starfar sjálfstætt og hefur mikið sjálfstæði. En engu að síður þarf að vera þar ákveðið samband á milli sem skiptir okkur máli.

Eitt af því sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra á aðalfundi Seðlabankans og hefur áður komið til umræðu á þinginu í dag er að hann segir að senn verði tímabært að gera fræðilega úttekt á því viðfangsefni hvort peningamálastefna Seðlabankans virki. Ég vildi gjarnan fá að heyra það skýrar frá hæstv. forsætisráðherra hvaða viðmið hann hefur þegar hann talar um að það verði senn tímabært. Ég hefði haldið að það væri tímabært nú þegar. Er það kannski þannig að þegar stýrivextir eru komnir í 20% sé tímabært að fara að skoða það hvort við séum á réttri braut með peningamálastefnu Seðlabankans eða ekki?

Annað kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra þar sem hann talaði um — í rauninni fannst mér eins og hann væri að tala til forsvarsmanna Samfylkingarinnar þegar hann sagði að menn yrðu að gæta sín í málflutningi. Í gær kom hæstv. utanríkisráðherra fram og (Forseti hringir.) sagði beinum orðum að krónan sé of veik mynt í efnahagskerfi okkar. Hver er skoðun hæstv. forsætisráðherra á því? (Forseti hringir.) Þetta var sett fram sem fullyrðing af hálfu hæstv. utanríkisráðherra.