135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[16:45]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var nokkuð kostulegt að hlusta á forustumenn Vinstri grænna og sér í lagi formann flokksins túlka viðhorf okkar samfylkingarmanna eða mín til gjaldmiðilsmála sjálfur hafandi nýlagt það til í blaðagrein í fullri alvöru að kasta íslensku krónunni, taka upp norræna krónu og hann hefur boðað tillögu um það á Norðurlandaráðsþingi. Það eru nú öll herlegheitin. Sjálfur hef ég sagt og Samfylkingin að það komi aldrei til greina að breyta um mynt með neinum hætti nema eftir umsókn eða aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Sá er munurinn á viðhorfum okkar og ég frábið mér þann fáránlega útúrsnúning sem hér var hafður uppi hafandi nýlesið hina kostulegu blaðagrein formanns vinstri grænna um að kasta krónunni og taka upp norræna. (Gripið fram í.) Það er sama hvað er reifað, það er alltaf að því undangengnu að við höfum sótt um aðild að Evrópusambandinu. Annars væri það útilokað. (Gripið fram í.)

Annars, virðulegi forseti, er langbrýnasta úrlausnarefnið, eins og hér hefur komið fram, að ná jafnvægi á íslensku krónuna, draga hratt úr vaxandi verðbólgu sem er vágestur sem við erum að leita allra leiða til að bægja frá. Og mestu um hana veldur að sjálfsögðu snörp gengislækkun síðustu vikna, mikil skuldsetning þjóðarbúsins, hækkanir á hrávörumörkuðum, þrengingar á erlendum lánamörkuðum og lánadrifin þensla á síðustu árum. Ýmis viðbrögð við þessari stöðu hafa verið kynnt hér af forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna.

Þá hafa komið fram vísbendingar um að mikil hækkun á skuldatryggingarálagi bankanna sem þrengir mjög að stöðu þjóðarbúsins og þeirra sjálfra og snörp lækkun á gengi krónunnar undanfarnar vikur skýrist að hluta til að minnsta kosti af skipulagðri árás alþjóðlegra vogunarsjóða og kerfisbundnum rógburði um stöðuna í íslensku efnahagslífi.

Þá hafa einnig borist fregnir af því að Kaupþing undirbúi málaferli gegn fjárfestingarbankanum Bear Stearns sem er frægur að endemum vegna hugsanlegrar þátttöku hans í tiltekinni aðför að íslensku krónunni.

Fjármálaeftirlitið hefur að sjálfsögðu tekið þessar vísbendingar og ásakanir mjög alvarlega og sérstaklega kerfisbundna dreifingu á röngum upplýsingum um stöðu íslenska fjármálakerfisins og hóf skoðun á því núna í janúar og hefur tilkynnt að það verði skoðað áfram. Þetta eru grafalvarlegar ásakanir sem verður að leiða til lykta sem allra fyrst enda er Ísland ekki fyrsta landið sem lendir í klónum á slíkum spákaupmönnum sem geta haft hér gríðarleg áhrif á stöðuna.

Annars skiptir mjög miklu máli samstillt og öflugt verðlagseftirlit. Ég hef boðað Alþýðusambandið, Neytendasamtökin og Neytendastofu til fundar við mig klukkan ellefu í fyrramálið til að hefja hér öflugt verðlagseftirlit og samstillt og koma í veg fyrir það með öllum tiltækum leiðum að alda verðhækkana brotni á almenningi í landinu. Við verðum að skoða allar færar leiðir til að koma í veg (Forseti hringir.) fyrir það, meðal annars lækkun á tollum og vörugjöldum. Ríkisstjórnin vinnur að því fullum fetum að (Forseti hringir.) koma í veg fyrir að þessar hækkanir komi með meiri þunga fram á almenningi en ráð er fyrir gert.