135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[16:51]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég verð þó hér að segja eftir að hafa hlustað á forustumenn ríkisstjórnarflokkanna að hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde er örugglega góður fræðimaður og sem slíkan gott á að hlusta og hann er áreiðanlega góðgjarn. En sá sem stýrir stórum hópi þarf að vera góður smali og hann þarf líka að getað notað svipuna og fjárhundinn til þess að halda hjörðinni saman. Ég efast nú sárlega um að það skap sé í hæstv. forsætisráðherra.

Svo verð ég að segja af því að hana Soffíu frænku bar á góma að mér finnst rangt að líkja formanni vinstri grænna við Soffíu frænku. Hann minnir mig miklu frekar á púkann á fjósbitanum, bæði snar í snúningum og hrekkjóttur. En mér finnst oft og tíðum eins og að hæstv. forsætisráðherra sé Soffía frænka og þeir ræningjarnir Kasper, Jesper og Jónatan steli honum alltaf sofandi þegar mest liggur við í íslenskum þjóðarbúskap. Við höfum horft á það að þegar byljirnir dynja á og hættan er mikil þá heldur ríkisstjórnin þriggja tíma fund. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra og segir: „Við höfum komist að þeirri niðurstöðu eins og jafnan áður að gera ekki neitt.“

Ég verð að segja að eftir þessa umræðu þá átta ég mig nú ekkert á því hvort nokkuð standi til en ég vona sannarlega að hæstv. forsætisráðherra taki á honum stóra sínum. Það er mjög gott sem hefur komið fram hjá honum og formanni Samfylkingarinnar hér að það stendur til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Það er mikilvæg aðgerð eins og ég fór yfir í ræðu minni. Ég er eftir þessa umræðu ekkert öruggur um að ríkisstjórnin muni vakna og vinna þau verk sem henni ber við þessar aðstæður.

Ég vil segja, af því ég minnist á vextina, að skuldatryggingarálagið bendir til þess erlendis sé álitið að fyrir Íslandi sé illa komið og það má velta því fyrir sér — og ég finn að hæstv. forsætisráðherra er að velta því fyrir sér — að sú tilraun sé í raun fullreynd að halda niðri verðbólgu með rangri gengisskráningu og hæstu vöxtum í heimi. Þar erum við kannski stödd í ákveðnum vítahring sem við verðum að komast út úr. Þetta er það sem er brýnast að fara yfir.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann geti tekið undir þá tillögu Framsóknarflokksins að nú sé mikilvægt að grípa til þjóðarsáttarborðs þar sem allir aðilar, margir aðilar komi að og vinni með ríkisstjórninni nokkurs konar neyðaráætlun. Ég vil að þessu sé svarað. Við framsóknarmenn munum senda okkar efnahagstillögur út til (Forseti hringir.) fjölmiðla þar sem við leggjum til úrræði sem eru mikilvæg við þessar erfiðu aðstæður í efnahagslífinu til þess að þjóðin bjargist frá þeim voða (Forseti hringir.) sem því miður hefur verið stofnað til með óvarkárri efnahagsstefnu (Forseti hringir.) hér innan lands og svo með vandanum utan frá.