135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

ástandið í efnahagsmálum.

[16:55]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Stundum fær maður á tilfinninguna að þeir sem tala í ræðustóli Alþingis fylgist alls ekki með því sem er að gerast í þjóðfélaginu. Hér eru menn að tala um það sem einhver ný tíðindi að ríkisstjórnin eða forsætisráðherrann hafi haft orð á því að það þurfi að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans. Það eru sex vikur síðan ég talaði um það á viðskiptaþinginu. Og það er langt síðan menn fóru að ræða það milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans að hafa það uppi í erminni þegar aðstæður eru heppilegar og rétti tíminn er kominn til þess. Þetta er ekkert ný hugmynd og hún er hvorki ættuð frá Vinstri grænum né Framsóknarflokknum.

Sama er að segja um þá sem halda því sífellt fram að ríkisstjórnin sé ekkert að gera. Fjármálaráðherra fór vel yfir það og það skiptir miklu máli við þessar aðstæður núna að það er búið að ákveða alls kyns aðgerðir í þágu láglaunafólksins í landinu en líka í þágu fyrirtækjanna til að greiða fyrir starfsemi þeirra með því að lækka tekjuskatt fyrirtækja. Þetta gerðum við allt í tengslum við nýgerða kjarasamninga og frumvarp um þetta efni er á leið inn í þingið núna þessa dagana.

Síðan er því haldið fram að ég hafi komið út af þriggja tíma fundi í ríkisstjórninni þar sem við vorum nú reyndar að afgreiða frumvörp í stórum stíl og sagt að það ætti ekki að gera neitt. Það sem ég sagði nákvæmlega var eftirfarandi: „Það er ekki tímabært að grípa til neinna sérstakra aðgerða út af þessu ástandi sem upp er komið að sinni.“ Og það var ekki tímabært. Ég tel að úr því að hv. þm. Guðni Ágústsson er farinn að tala hér um fræðimennsku og fræðifyrirlestur eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir gerði, þá hafi það verið rétt fræðilegt mat á þeim tíma að það hefði verið óheppilegt að grípa inn í atburðarásina eins og hún var þá.

En auðvitað eru menn á þessari vakt og auðvitað eru Seðlabankinn sem heyrir undir forsætisráðherra og ríkisstjórnin í mjög góðu samstarfi um þessi mál. Hvernig á annað að vera þegar svona stendur á eins og nú háttar til? Auðvitað er það þannig og auðvitað eru menn með öll spjót úti til að vinna bug á þessu ástandi sem upp er komið.

Skuldatryggingarálagið á íslenska ríkinu og bönkunum er þvæla. Það er farið mjög vel yfir það hér í nýútkomnu ensku blaði sem greinir þetta alveg í sundur og kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé. Þetta er útgáfa sem oft hefur verið mjög gagnrýnin á íslensku bankana. En nú segja þeir að nú sé of langt gengið í þessu rugli með skuldatryggingarálagið og það segir sig sjálft að íslenska ríkið sem er nánast skuldlaust getur ekki verið með 400 punkta álag þannig að eitthvert vit sé í því. Það er bara vitleysa alveg eins og ég rakti á ársfundi Seðlabankans, virðulegi forseti. Að öðru leyti þakka ég þessa umræðu. (Gripið fram í.) Hún er fín.