135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979.

429. mál
[17:24]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar umræðan um sögu Breiðavíkurheimilisins hófst á síðasta ári var það okkur öllum að sjálfsögðu mikið áfall. Umræðan skók samfélagið. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni, Kolbrúnu Halldórsdóttur, að þeir dugmiklu og eljusömu kvikmyndagerðarmenn sem höfðu fyrir því að grafa upp staðreyndir þessa máls og sátu yfir því árum saman að vinna þá heimildarmynd sem varð kveikjan að þessari umræðu eiga miklar þakkir skildar og mikinn heiður skilinn.

Ég vil líka í upphafi máls míns þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hvernig hann hefur síðan haldið á þessu máli og fyrir þá nefndarskipan sem hlutast var til um í kjölfarið. Síðan tel ég fulla ástæðu til að þakka kærlega þeirri vel skipuðu nefnd sem hefur skilað mjög góðri skýrslu sem satt að segja ber höfundunum fagurt vitni og vísar veginn um það hvernig taka á á erfiðum málum af þeim toga sem við höfum nú þurft að takast á við. Það er nefnilega margt fleira en það sem sést við fyrstu sýn sem stingur í augun þegar horft er á þetta mál. Eitt er það sem við getum örugglega flest viðurkennt þegar horft er til baka að flest höfðum við heyrt ávæning af því, orðspor, umtal í gegnum áratugina að ekki hefði allt verið með felldu í Breiðavík en sú umræða komst aldrei upp á yfirborð þjóðmálaumræðu í landinu. Það er mikið athugunar- og umhugsunarefni. Var það vegna þess að fórnarlömbin höfðu átt í erfiðleikum eftir veru sína þar, höfðu þurft að glíma við margháttaða erfiðleika í eigin lífi, höfðu sum leiðst út á afbrotabraut? Var það þess vegna? Vegna þess einfaldlega að fólkið sem hafði frá sögunni að segja var ekki sú tegund af fólki sem við leggjum í vana okkar að hlusta á? Var það þess vegna? Allt þetta þurfum við að hafa í huga, að við höfðum heyrt ávæning af þessu en hann hafði aldrei verið tekinn alvarlega.

Það er gríðarlega mikilvægt að þessi rannsókn hafi farið fram og það er gríðarlega mikilvægt líka með hvaða hætti nefndin sinnti verki sínu. Það er oft sagt að ekki eigi að róta í gömlum málum af þessum toga því að það geri bara illt verra en eins og frelsarinn sagði er það sannleikurinn sem gerir okkur frjálsa. Það er sannleikurinn einn sem gerir okkur kleift að horfast í augu við fortíðina og læra af henni og vísa veginn til framtíðar. Það er tvennt sem fólk óttast iðulega þegar slík mál eru rædd og reynt er að horfa til baka. Annars vegar að framburður þeirra sem um sárt eiga að binda sé óáreiðanlegur og ekki sé hægt að leggja hann til grundvallar og hins vegar að í reynd sé verið að nota þekkingu og viðmið dagsins í dag og setja mælistiku dagsins í dag á löngu liðna atburði.

Það er sérstakt hrósefni að nefndin vann rannsókn sína með þetta tvennt í huga og mætti þessum tveimur sjónarmiðum strax frá upphafi í öllum verkum sínum. Hún kallaði eftir sérfræðiáliti frá færustu sálfræðingum sem staðfestu að fullar forsendur væru til að leggja vitnisburðinn til grundvallar og hún vann eftir vandaðri lögfræðilegri aðferðafræði og sýndi fram á að ekki væri verið að brjóta lög dagsins í dag með þeirri framgöngu sem var á Breiðavíkurheimilinu heldur lög þess tíma. Að því leyti tel ég þessa niðurstöðu sérstaklega merka að hún færir okkur heim sanninn um það að hægt er að rannsaka löngu liðna atburði af þessum toga með fullri sanngirni og gæta hennar í hvívetna. Það er skýr niðurstaða nefndarinnar að réttur var brotinn á vistmönnum og að ekki var farið að lögum sem giltu á þeim tíma. En hvaða lærdóma getum við dregið af þeirri niðurstöðu? Því að eitt er að búa við góða og vel unna skýrslu og leysa vonandi úr þeirri óvissu sem verið hefur um þetta mál og fá öll kurl til grafar og annað er hvernig við nýtum þá þekkingu og hvaða lærdóma við drögum.

Í fyrsta lagi er rétt að benda á að hæstv. félagsmálaráðherra er með á leið inn í þingið aðgerðaáætlun í barnaverndarmálum sem ég held að sé afskaplega mikilvægt að þingið taki til vandlegrar umfjöllunar m.a. í ljósi þessarar skýrslu. Við verðum að búa svo um hnúta að við gerum allt sem við getum til að tryggja að atburðir af þessum toga endurtaki sig ekki. Við verðum að tryggja að eftirlit með þeim aðilum sem sinna meðferðarúrræðum á sviði barnaverndarmála sé skilvirkt og við þurfum að gæta þess að það sé vandað. Við þurfum að tryggja menntunarkröfur og hæfniskröfur til þeirra sem sinna verkefnum af þessum toga. Þar var mjög pottur brotinn í Breiðavík.

Við þurfum líka að hugsa um það að Breiðavíkurheimilið og þögnin um það veltir upp þeirri spurningu hvort þjóðfélagsleg staða þeirra sem þarna urðu fyrir ofbeldi valdi því að þessir hörmungaratburðir gátu orðið. Það virðist vera svo að í einhverjum tilvikum hafi ákvarðanir um vistanir jafnvel verið teknar vegna þess að um var að ræða drengi sem voru ekki einu sinni vandræðadrengir, voru kannski nokkuð baldnir, en bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður, bjuggu kannski hjá einstæðri móður. Með öðrum orðum, þeir voru ekki sendir til Breiðavíkur vegna neins sem þeir höfðu gert heldur vegna þess að þeir voru úr ákveðnum þjóðfélagshópi. Það er mjög athugunarvert hvort það sé í reynd þannig að þessi hópur hafi ekki haft rödd og þess vegna hafi ekki til hans heyrst. Maður hlýtur þá líka að hugsa: Hverjir eru það í dag sem hafa kannski ekki þá rödd? Það er mikilvægt að barnaverndarstarf í landinu gæti alltaf að því hvar þeir hópar barna eru sem erfiðast eiga með að bera hönd fyrir höfuð sér.

Við höfum heyrt á undanförnum missirum ýmsar vísbendingar um að ofbeldi af ýmsum toga kunni að hafa viðgengist í Heyrnleysingjaskólanum. Þar er auðvitað augljósasti hópurinn sem ekki getur komið fyrir sig orði. Við þurfum líka að hugleiða stöðu barna innflytjenda, hvernig er komið eftirliti með því að réttur þeirra sé tryggður í barnaverndarmálum og almennt í skólakerfi og annars staðar.

Það er mikilvægt að ríkisstjórnin hefur ákveðið að fela þessari ágætu nefnd frekari umfjöllun um þessi mál og að hún taki til athugunar allar þessar stofnanir. Hún hefur sýnt að hún hefur komið sér upp verklagi sem er skynsamlegt og málefnalegt og eðlilegt að hún fái að vinna áfram á þeim grundvelli.

Þá kemur að spurningunni um uppgjörið, spurningunni um það hvernig að öðru leyti verði skilið við þann hóp sem á um sárt að binda í þessu máli. Eins og hæstv. forsætisráðherra rakti áðan mun koma fyrir Alþingi frumvarp um greiðslu skaðabóta til fórnarlambanna. Það mun koma fram á þessu stigi og þá gefst okkur tækifæri til að ræða það í þessum sal og fjalla um peningaþáttinn að því leyti en peningar bæta auðvitað ekki allt. Peningar bæta ekki fyrir glataðan tíma, samvistir við fjölskyldu og systkini. Peningar bæta ekki fyrir glötuð tækifæri og peningar bæta ekki líf sem hefur farið á annan veg en til stóð ella vegna þess að ekki var um að ræða að viðkomandi nyti menntunar eða væri í aðstöðu til að nýta sér þau tækifæri sem lífið annars hefði getað boðið honum upp á. Það sárasta við þessar aðstæður er að með því að líta í baksýnisspegilinn getum við aldrei að fullu bætt tjónið fyrir hvern og einn einstakling. Sárast er auðvitað að vita til þess að sumir af þessum einstaklingum eru ekki meðal vor í dag að hluta til vegna erfiðleika sem þeir gengu í gegnum í kjölfar vistarinnar í Breiðavík.

Virðulegi forseti. Fórnarlömbin í þessu máli hafa oft kvartað um það að þeim finnist stjórnvöld og hið opinbera ekki axla með nægilega skýrum hætti ábyrgð á því sem gerðist í Breiðavík. Auðvitað er það ekki á okkar færi sem hér stöndum í dag eða ráðherra í núverandi ríkisstjórn Íslands að taka persónulega ábyrgð á því sem þarna gerðist en það er mikilvægt að við öxlum samt stjórnarfarslega ábyrgð á því sem gerðist. Það er ljóst að það er í reynd þríþætt vanræksla sem átti sér stað. Í fyrsta lagi voru ákvarðanir um vistun oft ekki teknar með þeim hætti sem lög kváðu þá um að ætti að hafa. Í annan stað brutu stjórnvöld rétt á fórnarlömbunum með þeim vistunarháttum sem þarna voru, allt frá því að láta ofbeldi viðgangast og niður í það að sinna ekki menntunarskyldum með fullnægjandi hætti. Að síðustu vanræktu stjórnvöld það eftirlit sem auðvitað átti að fara fram með starfseminni.

Það er ekki á okkar færi að taka persónulega ábyrgð á því sem þarna gerðist en það er á okkar færi að taka siðferðilega ábyrgð á því sem gerðist. Þó að, held ég, enginn í þessum sal í dag hafi setið á Alþingi á þessum tíma þurfum við auðvitað að axla þá siðferðilegu ábyrgð að forverar okkar í þessum sal sinntu ekki heldur því hlutverki sem þeim bar í eftirlitsskyldum í þessu máli. Því vil ég ljúka máli mínu með því að segja með skýrum hætti fyrir mína hönd og fyrir hönd Samfylkingarinnar að við biðjumst afsökunar, við biðjumst afsökunar og þó að það sé létt í hendi og hafi kannski ekki mikla þýðingu þá vil ég að sú afsökunarbeiðni komi skýrt fram úr þessum stól.