135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979.

429. mál
[18:26]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum fremur dapurlegt mál og óvenjulegt að taka til umræðu í þingsölum. Það er ekki laust við að þegar maður hefur stýrt uppeldisstofnun í yfir 25 ár þá horfi maður til baka og velti fyrir sér hvort einhvers staðar í sínu eigin umhverfi hafi átt sér stað slík mistök að það sé ástæða til að taka þau upp og skoða betur síðar.

Breiðavíkurmálið virðist hafa komið aftan að mörgum og ber að þakka að það var fólk til staðar sem léði málinu eyra og kom því á framfæri. Einnig ber að þakka að íslensk stjórnvöld hlustuðu þegar málinu var komið á framfæri og brugðust rétt við, þ.e. með skipun nefndar sem hefur að mínu mati unnið vandasamt verk með mjög virðingarverðum og góðum hætti. Ég get ekki séð annað en að í öllum atriðum hafi nefndin tekið á málinu af mikilli virðingu og ábyrgð og reynt að nálgast með því að leiða fram allar þær upplýsingar sem skipta máli í sambandi við þetta dapra tímabil í barnaverndarsögu Íslands. Ber að þakka vinnu nefndarinnar og það frumkvæði sem ríkisstjórnin sýndi með því að fara út í þessa vinnu. Yfirlýsingar um að fylgja málinu frekar eftir hafa þegar komið fram og skoða á hverjir aðrir gætu hugsanlega hafa átt við svipaðan kost að búa.

Það er auðvitað nauðsynlegt þegar við skoðum atburði sem áttu sér stað við rekstur á Breiðavíkurheimilinu á árunum 1952–1979 að skoða þá út frá aðstæðum á þeim tíma. Við sem höfum unnið að uppeldismálum höfum fylgst með þeim kollsteypum sem átt hafa sér stað í umræðunni um uppeldi barna, með hvaða hætti á að taka á málum. Það hafa verið uppi ólíkar hugmyndir um hvað dugar best í uppeldi barna. Við höfum fylgst með því í umræðu, einkum erlendis frá, að mælt hefur verið með harðræði gagnvart börnum í uppeldinu. Sjálfsagt þótti það á einhverjum heimilum áður fyrr vera besti kosturinn að menn fengju að finna til tevatnsins þannig að þeir lærðu alvöru lífsins.

Eftir allt það sem við lesum í þessari skýrslu — og það er jafnframt reynsla mín — að það er fátt sem dugir betur á börn en umhyggja og virðing. Það sem hefur brugðist er að ytri aðbúnaður eða kerfislægar ákvarðanir hafa tekið völdin umfram ást, umhyggju og þá virðingu sem skipta meginmáli þegar verið er að fjalla um börn.

Það ber að geta þess að tímabilið frá 1952–1979 er ekki einsleitt. Þó að lausnin mundi kannski ekki teljast boðleg í dag þá er augljóst að tekið hefur verið á þessum málum með ólíkum hætti. Það kemur líka fram að margt var reynt og margt var gert vel á þessum tíma, því má ekki gleyma. Starfsmenn gerðu sitt besta oft við erfiðar aðstæður. Þess vegna er mikilvægt að við alhæfum ekki, að við drögum ekki alla í sama dilk og látum eins og hér hafi verið um að ræða einsleitt, óbreytt form allan tímann.

Við tölum gjarnan um Breiðavíkurdrengina og um þá fjallaði kvikmyndin en það voru stúlkur í Breiðavík líka á ákveðnu tímabili. Að vísu var það tímabil með því skársta, ef miða má við skýrsluna, en það breytir ekki því að það undirstrikar einmitt að fjalla ber um málið með varúð og alhæfa ekki, hvorki að því er varðar hegðun starfsfólks eða meðhöndlun á börnum. En eftir sem áður er auðvitað mikilvægt að taka alvarlega þær hræðilegu sögur sem við heyrum. Það sló mig fyrir rúmu ári síðan þegar þessi umræða var að byrja að horfa á harðfullorðna karlmenn gráta þegar þeir sögðu frá þessum tíma. Það undirstrikar auðvitað hversu varanlegur skaði það er að lenda í slíku umhverfi og upplifa vanlíðan, einangrun og jafnvel misþyrmingar eins og þarna áttu sér stað á ákveðnum tímabilum. Auðvitað er rétt að aðferðafræðin bauð upp á þennan jarðveg. Við þekkjum það úr samfélaginu að við ákveðnar aðstæður búum við til jarðveg fyrir einelti, kúgun, ofbeldi og misbeitingu. Það er þess vegna sem meginlærdómurinn af þessari skýrslu er að reyna að tryggja að slíkir hlutir gerist ekki og geti ekki gerst undir neinum kringumstæðum.

Komið hefur fram að ríkisvaldið og þingið munu bregðast við og reyna að bæta úr þeim skaða sem orðinn er en það er auðvitað engan veginn hægt að fullu. Það eina sem við getum gert er að sýna þá virðingu sem hér hefur verið rætt um, að viðurkenna þessi alvarlegu mistök og ég tek undir að það er engin ástæða til annars en biðjast fyrirgefningar á þessum atburðum. Mér finnst mikilvægt að málum verði fylgt eftir, að fleiri stofnanir og heimili verði skoðuð og að þeim sem þarna áttu hlut að máli verði boðnar skaðabætur þó að þær einar og sér geti ekki bætt úr málum.

Núverandi þing og ríkisstjórn hafa brugðist við, ekki aðeins í þessu máli sérstaklega og reynt að horfa til þess að við þurfum á hverjum tíma að bjóða börnum okkar þá bestu aðstöðu sem hugsanleg er. Þau hafa forgang í samfélagi okkar. Því var gerð aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna á sumarþinginu síðasta sumar og nú er komin framkvæmdaáætlun ríkisins í barnavernd. Það er mál sem vonandi fær mikla og góða umfjöllun í þinginu þar sem koma fram ýmsar hugmyndir um með hvaða hætti við getum reynt að fyrirbyggja að slíkir atburðir gerist í samtímanum. Mikilvægasta verkefnið okkar er að bæta hag barna og fjölskyldna. Það er ekki vansalaust að við skulum ekki þegar hafa innleitt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna formlega og tekið upp allar þær miklu kröfur sem þar eru. Ég held að það sé eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að vinna. Við þurfum líka að tileinka okkur nýjustu aðferðirnar í uppeldisfræði til að aðstoða fjölskyldur og börn sem eiga í erfiðleikum þar sem reynt er að nálgast vandamálið á heimavelli þeirra sem á aðstoð þurfa að halda. Þar er sem betur fer búið að boða ákveðnar aðferðir sem þegar er verið að prófa í einstökum skólum í nokkrum bæjarfélögum. Það er okkar að fylgja því eftir að þessum aðferðum verði beitt þannig að við náum sem allra bestum árangri. Eftir sem áður verður það alltaf þannig að það eru einstaka börn sem þurfa vistun utan heimilis og þá reynir á að umsýslan sé eins og hún best getur orðið. Þetta gildir líka um það hvernig við flokkum eða greinum börn og bjóðum þeim aðstoð í vandræðum þeirra.

Ég nefndi þessi nýju úrræði. Í gangi hafa verið hugmyndir um að komið verði á með skipulegum hætti foreldrafræðslu í auknum mæli og er hún þegar hafin. Fræðslan hefur hlotið ýmis heiti. Við þekkjum aðferð eins og fjölþáttameðferð eða MST, við þekkjum foreldrafærni, PMT sem er líka í gangi. Þessi úrræði verða vonandi til þess að við getum brugðist við með öðrum hætti en gert var á þessum tíma og annast börnin okkar og fjölskyldurnar miklu betur en samfélagið gerði áður. Niðurstaðan er einfaldlega sú að atburðir eins og áttu sér stað á Breiðavík mega aldrei gerast aftur. Við getum miklu betur og við verðum að gera betur. Við verðum að þora að skoða hvort einhvers staðar sé eitthvað að gerast sem betur má fara. Þá eigum við að taka það upp með svipuðum hætti og hér var gert, með auðmýkt og virðingu og leiða málin fram í dagsljósið til þess að gera betur.