135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979.

429. mál
[18:44]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ákaflega málefnaleg umræða um þá miklu skýrslu sem þingmenn hafa haft undir höndum og getað kynnt sér um nokkurt skeið. Vissulega er það rétt, sem hér hefur komið fram, að tilefnið er dapurlegt en engu að síður er ástæða til að takast á við þetta verkefni. Það er mat mitt að nefndin hafi lagt sig fram um að skipuleggja starf sitt og ákveða efnistök með þeim hætti að sem mestar líkur séu á því að út úr skýrslunni komi það mikið af upplýsingum og ábendingum að stjórnmálamenn geti tekið skynsamlegar ákvarðanir á þeim grundvelli sem skýrslan reisir.

Ég vil benda á fáein atriði, virðulegi forseti, í þessu máli sem mér finnst ástæða til að ítreka eða taka fram. Það er í fyrsta lagi að lögin, sem eru grundvöllur að starfi nefndarinnar, gera ráð fyrir því að könnuð verði starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn almennt, ekki bara heimilið í Breiðavík. Ég tel afar þýðingarmikið að ekki verði látið staðar numið hér eins og nefndin sjálf setur raunar fram í greinargerð sinni á bls. 30. Hún fer þar fram á það við ráðherrann að fá nýtt erindisbréf og að ráðherrann taki afstöðu til þess hvort starfinu verði haldið áfram. Ég teldi afar misráðið ef hér yrði látið staðar numið og aðeins skoðað þetta eina mál, þessi eina stofnun, sem hefur verið svo mikið í fjölmiðlum. Ég heyri að hæstv. ráðherra hefur hug á því að starfið haldi áfram og skoðunin verði víðtækari og ég fagna því. Hitt væri afar óheppilegt ef opinberir aðilar létu það eitt duga að gera úttekt á þeirri stofnun sem fjölmiðlar hafa fyrst og fremst beint kastljósi sínu að og eru tildrög þessa máls. Það er ekki sanngjarnt gagnvart þessari stofnun eða þeim sem ráku hana eða störfuðu við hana um langt árabil að eingöngu sé litið á hana eina án þess að skoða aðrar stofnanir. Það er heldur ekki sanngjarnt gagnvart vistmönnum sem dvöldu á þeim stofnunum.

Í öðru lagi vekur það athygli mína hversu varfærnar niðurstöður nefndarinnar eru. Það er ljóst að nefndin dregur nokkuð vel fram og ákveðið upplýsingar sem lýsa starfsemi þessarar stofnunar og hvernig opinberu eftirliti var háttað. Nokkuð traustar heimildir virðast t.d. vera fyrir því að eftirliti hafi verið áfátt af hálfu menntamálaráðuneytisins og e.t.v. fleiri aðila. Meginverkefni nefndarinnar var að leitast við að staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem þarna voru vistuð hafa sætt illri meðferð eða ofbeldi meðan á dvölinni stóð. Það er kjarni málsins sem öll umfjöllunin snerist í raun og veru um þar sem einstakir vistmenn rifja upp sína reynslu. Niðurstaðan finnst mér mjög athyglisverð og vert að menn íhugi hana. Hún er einfaldlega sú að nefndin treystir sér ekki til að leggja mat á framburð einstakra aðila í málinu. Nefndin er í raun og veru að segja, ef ég skil málið rétt, að af ýmsum ástæðum, sem tilgreindar eru í skýrslunni, sé nú svo komið að ekki sé hægt að kveða upp úr um sannleiksgildi einstakra frásagna. Það þýðir ekki að menn séu að vefengja frásagnir heldur einfaldlega að það sé erfitt og greinilega ómögulegt að staðreyna þær og það er kjarni málsins sem ég held að menn verði að horfa svolítið á.

Í því felst líka að ef ekki er hægt, á grundvelli einstakra lýsinga, að kveða upp úr um sök eða sakleysi þá er líka ómögulegt að fella slíka dóma yfir þeim sem málið beinist gegn, hvort sem það eru starfsmenn eða aðrir vistmenn. En það hefur verið þungamiðjan í opinberri umfjöllun um þetta sorglega mál að það hafi verið gerendur sem voru sekir. Það er umhugsunarefni þegar ekki er hægt að kveða upp úr um þetta og við verðum þá að stíga skrefin í framhaldinu í því ljósi. Þeir sem spjótin beinast gegn eiga líka rétt á því að vera ekki dæmdir fyrst grundvöllur málsins er eins og nefndin lýsir honum.

Það má hugsa sér, eins og nefndin bendir á en gerir þó ekki tillögu um, að greiddar verði skaðabætur — og ég vek athygli á því hvað tillagan er varfærin — að stjórnvöld leggi mat á það hvort og þá að hvaða marki verði leitast við að rétta hlut einstaklinga með fjárgreiðslu í formi skaðabóta. Auðvitað má velta því fyrir sér. En nefndin gerir greinilega enga ákveðna tillögu um það vegna þess að hún treystir sér ekki til þess. Ég held að ef farið verði út í að greiða skaðabætur séu menn að kveða upp úr með sekt og þá verður farið að leita að sökudólgum. Ef gripið verður til fjárgreiðslna, sem mér finnst ekki útilokað, verða þær að vera í öðru formi og með öðrum rökstuðningi til að blanda ekki inn í umræðu um þær greiðslur sekt eða sakleysi einstakra starfsmanna eða annarra vistmanna í málinu. Málið liggur þannig fyrir að við getum ekki kveðið neitt upp úr um það og getum ómögulega rætt það á þeim grundvelli.

Ég tek undir þær tillögur sem hér koma fram eða hugmyndir um að veita þeim sem í hlut eiga aðgang að heilbrigðisþjónustu eins og geðheilbrigðisþjónustu. Ég held að miklu ákveðnari skref eigi að stíga í þeim efnum og að mínu viti má líka bæta menntakerfinu við því að það besta sem hægt er að gera er að reyna að hjálpa einstaklingum og skapa þeim aðstæður til að geta fótað sig fram veginn. Það væri mjög skynsamlegt úrræði að mínu viti að reyna að opna sem mest heilbrigðis- og menntaþjónustu fyrir þessa einstaklinga og að þeir fái jafnvel greiðslur sem gera þeim kleift að fara þá leið. Slíkt fyrirkomulag felur ekki í sér dóma eins og skaðabætur gera.

Virðulegi forseti. Ég sé að sneyðist um tíma minn og hef svo sem ekki ástæðu til að fara yfir það sem komið hefur fram í máli annarra ræðumanna og ég tek meira og minna undir. Ég vil þó segja, virðulegi forseti, og tek undir það sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, að gæta verður að þeim sem hafa mátt þola ásakanir í þessari umræðu, en því hefur verið töluvert beint gegn öðrum starfsmönnum eða jafnvel öðrum vistmönnum. Menn verða að gæta að því að fara af mikilli hógværð og varkárni í þeim efnum. Umræddir aðilar eiga fullan rétt á því að þeir komist frá þessari umræðu tiltölulega óskaddaðir rétt eins og hver annar sem í hlut á. En ég get ekki stillt mig um annað, virðulegi forseti, en benda á eitt atriði sem vekur athygli mína og það er að nefndin telur engan vafa leika á því að alþjóðasamningur sem Íslendingar hafa fullgilt en ekki lögfest, mannréttindasáttmáli Evrópu, er talinn hafa lagagildi hér. Það mega stjórnvöld hafa í huga við úrlausn á öðru máli þar sem eins er ástatt, og það í mikilvægu máli, virðulegi forseti.