135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:34]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Meginatriðið er það að lögreglan fái vinnufrið, að lögreglan fái að sinna verkum sínum og berjast við þá glæpamenn og þá aðila sem henni er ætlað að vinna gegn og vinna að því að tryggja öryggi borgaranna. Það er algert lykilatriði. (Gripið fram í.) Það er það sem þarf að vera og þær reglur þurfum við að setja.

Það er líka alveg ljóst að það hefur ekki verið neitt bilað, það hafa ekki verið nein vandræði hjá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum. Það hefur gengið vel, það hefur gengið mjög vel. Meðal annars hafa lögreglustjórarnir eða lögreglustjóraembættin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum fengið samfélagsverðlaunin fyrir framúrskarandi árangur og því ber að fagna. Því er alveg ljóst að veigamikil rök þurfa að koma til þegar breyta á fyrirkomulagi sem gengur vel. Ég sagði það því hér í gær að ég hefði miklar efasemdir um að skipta ætti upp tollinum og löggæslunni á Suðurnesjum og við það stend ég. Ég tala hins vegar sem þingmaður og ég tala hér samkvæmt þeirri samvisku sem ég hef og því viðhorfi sem ég hef í þessu tiltekna máli. Ég er sannfærður um það að í dag eru samlegðaráhrif af því að vinna þetta saman, bæði faglega og fjárhagslega. Ef það á að breyta þessu þurfa mjög veigamikil rök að koma til, það er mín niðurstaða. Það kom fram á fundinum í gær og það hefur ekkert breyst á 24 tímum.