135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:53]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þótti síðasta ræða mjög athyglisverð. Ég veit ekki hvort ég ætti að skilja hana svo að þar lýsti hv. þingmaður einhvers konar reynslu, það væri einhver reynslusaga eða reynslurök sem þar kæmu fram.

Ég hef komið í ræðustól og gert grein fyrir því að ég hef miklar efasemdir um þessar breytingar og að það þurfi veigamikil rök, allt önnur rök heldur en komið hafa fram til þessa, til að sannfæra mig um að gera þurfi þessar breytingar. Það er lykilatriði.

Í annan stað vil ég segja um þessa umræðu að meginreglan er sú að lögreglustjóri og tollstjóri séu sami maður, að sami maður fari með lögregluvald og tollvald. Frá því er aðeins undantekning á höfuðborgarsvæðinu. Það er hvergi annars staðar þannig, í þeim átta umdæmum sem eru við lýði þá eru sjö þannig að lögreglustjóri fer með toll- og löggæsluna. Sú breyting sem hér er verið að boða er undantekning frá meginreglunni á landinu. Það þarf veigamikil rök til að fara þá leið, ekki hvað síst þegar viðkomandi embætti hafa staðið sig vel. Því það er engin ástæða til þess að brjóta upp það sem hefur gengið vel. Það er engin ástæða fyrir menn að gera við það sem ekki bilar.

Ef málið snýst um það að færa til í fjárlögum eða á fjárlagaliðum framlög til embættisins, þ.e. að tollurinn heyri undir fjármálaráðuneytið á fjárlagalið o.s.frv., þá þarf engar lagabreytingar til þess. Það er mjög auðvelt að gera það í fjárlögum ef það er meginatriðið. Ég met það þannig að verði þetta brotið upp muni það til lengri tíma skaða embættið og starfið þar suður frá. Ég mun ekki standa að því.