135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

löggæsla á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu -- kjör elli- og örorkulífeyrisþega.

[14:03]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi það mál sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir tók upp fyrst á fundinum þá vil ég eindregið taka undir þær efasemdir sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafði um þær breytingar sem boðaðar hafa verið. Þó að þær kunni að eiga við ákveðin efnisrök að styðjast þá er það svo að embættið í Keflavík hefur náð gríðarlega góðum árangri í málaflokki sem varðar okkur æ meira og skiptir allan almenning miklu máli og við höfum öll áhyggjur af sem eru fíkniefnamálin. Þegar aðilar eru að ná jafnmiklum árangri og menn hafa verið að gera í Keflavík í þeim mikilvæga málaflokki sem fíkniefnamálin eru þarf mjög veigamiklar röksemdir fyrir því að gera breytingar á því fyrirkomulagi og ég tel að þær röksemdir séu a.m.k. ekki enn fram komnar.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ölmu Lísu Jóhannsdóttur fyrir að taka upp málefni lífeyrisþega, ekki síst á þessum degi því að í dag, 1. apríl, fögnum við sigri, fullnaðarsigri öryrkja í einu af stærstu mannréttindamálum sem við höfum barist fyrir í á annan áratug. Í dag féll niður tengingin við tekjur maka sem við höfum barist fyrir breytingum á í á annan áratug og í dag hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tryggt það undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur að litið er á lífeyrisþega sem sjálfstæða einstaklinga en þeir eru ekki látnir vera á framfæri eða í bónbjörgum hjá maka sínum. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni og það er rétt hjá Alþýðusambandinu, Öryrkjabandalaginu og Landssambandi eldri borgara að nú eru aðeins komnar til framkvæmda ákveðnar lágmarksbætur úr þeim kjarasamningum sem gerðir voru nýverið og betur má ef duga skal. Tryggingakerfið er ákaflega flókið og það er nefnd að vinna í því að endurskoða það og taka afstöðu til lágmarksframfærslu í kerfinu. Nefndinni hefur verið gert að skila tillögum (Forseti hringir.) hinn 1. júlí næstkomandi og við hljótum að binda miklar vonir við að þar komi enn frekari kjarabætur fram til lífeyrisþega en þegar er orðið en þær eru sem kunnugt er orðnar verulegar.