135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

Sundabraut.

[14:24]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að íbúar landsins binda miklar vonir við jarðgöng. Ég vil nefna hér að þegar Hvalfjarðargöngin voru tekin í gagnið þá var sú er hér stendur í þinginu og við ákváðum að veita hér ábyrgð á láni til Spalar og það var mjög gaman að upplifa það af því manni fannst þetta svo ótrúlegt að það væri bara yfirleitt hægt að fara í svona framkvæmd á Íslandi. En sú framkvæmd er orðin að veruleika og maður spyr sig núna af hverju við gerðum þetta ekki mikið fyrr. Það er gaman að líta til baka í þessu sambandi.

Núna erum við að bora á Norðurlandi. Ég vil minnast á það að 3. apríl næstkomandi verður hátíð í Fjallabyggð vegna Héðinsfjarðarganga, áfanga þar. Það er mikið rætt um göng á Vestfjörðum, fleiri göng þar. Það er rætt um göng á Austurlandi milli Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar, Norðfjarðar og upp á Hérað þannig að mjög víða er verið að tala um göng.

Enn ein göngin eru svo Sundabrautargöng í sambandi við Sundabraut. Ég vil draga það fram að framsóknarmenn hafa stutt þessa framkvæmd af heilum hug og það er núna sameiginleg niðurstaða í borgarstjórn Reykjavíkur um að fara ytri leið. Með henni mundi skapast mjög skemmtilegur ás, má segja, vegna þess að þau göng eiga að koma upp svona um það bil þar sem Strætisvagnar Reykjavíkur eru með sínar höfuðstöðvar og það yrði þá ás upp á Kringlumýrarbrautina.

Ég tel að það eigi að fara sem fyrst í þessa framkvæmd. En ég skil alveg að það þurfi að kanna mjög vel þennan kost af því þarna er verið að fara undir sjó og það er alveg eðlilegt að það sé rannsakað. En ég vil samt hvetja samgönguráðherra hæstv. til að standa sig í stykkinu eins og hann getur varðandi það að ýta því áfram. Ég held að Vegagerðin hafi of mikið bundið sig í aðra leið af því það er alveg ljóst að Reykjavík hefði ekki breytt aðalskipulagi (Forseti hringir.) í andstöðu við stór íbúasamtök til þess að fara þá leið sem Vegagerðin hefur helst kosið.