135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

Sundabraut.

[14:31]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. 4. þm. Norðaust. að Sundabrautin er ein af allra mikilvægustu framkvæmdum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Sundabrautin er ein mikilvægasta framkvæmdin sem leggja þarf áherslu á hér á höfuðborgarsvæðinu og hefur verið í langan tíma.

Það hefur verið rifjað upp í þessari umræðu að það hefur tekið langan tíma að koma Sundabrautinni inn í skipulag höfuðborgarinnar. Ég þurfti árum saman að sitja undir því hér, því var haldið miskunnarlaust fram, að það væri samgönguráðherra að kenna að ekki væri búið að bjóða út framkvæmdir við Sundabraut. Nú er því ekki lengur haldið fram. Hv. þingmenn, t.d. hv. þingmenn Samfylkingarinnar, gera það ekki lengur.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði, við þurfum að sameinast um þetta verkefni. Það hefur verið reynt í mjög langan tíma. Þetta er mjög vandasamt en það er ekki fyrr en nú á þessu ári sem talsmenn höfuðborgarinnar hafa sagt alveg ákveðið hvaða leið þeir vilja fara. Ár eftir ár er aðalskipulag höfuðborgarinnar afgreitt og samþykkt án þess að fyrir liggi hvar Sundabrautin eigi að liggja. Þetta liggur allt fyrir skjalfest.

En hvað um það. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið. Fjárveitingar hafa verið til framkvæmda við Sundabraut í langan tíma. Unnið hefur verið að málinu í samstarfi borgarinnar og Vegagerðarinnar og innan tíðar þarf að taka af skarið. En það er alveg ljóst að enn mun tími líða, kannski fram til ársins 2011, þar til framkvæmdir geta hafist. Ég (Forseti hringir.) spái því. Þá þarf að fara í breikkun Vesturlandsvegar. Það getur ekki beðið þar til Sundabrautin verður gerð (Forseti hringir.) og ég spái því að hún muni fara í göng.