135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

Sundabraut.

[14:33]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að vekja máls á þessu þarfa atriði. Ég vil jafnframt óska hæstv. samgönguráðherra til hamingju með að geta nú horft inn í Héðinsfjörð, þess vegna daglega ef hann óskar. En það kannski sýnir hvert forgangsröðun í samgöngumál er komin, hún er í tómri vitleysu. Ekki er forgangsraðað fyrir fólk heldur eftir einhverjum öðrum sjónarmiðum.

Þegar hæstv. samgönguráðherra var spurður hvað liði undirbúningi að Sundabraut sagði hann að undibúningi miðaði nokkuð vel. Formaður samgöngunefndar, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, gerði grein fyrir því hvernig þessi mál hefðu velkst á milli en engin ákvörðun verið tekin og ekki byrjað á einu eða neinu. Það er staðreyndin í málinu.

Menn hafa oft staðið frammi fyrir því, það er jú verkefni stjórnmálamanna, að taka ákvarðanir, að höggva á hnúta, að taka ákvarðanir, að ráðast í framkvæmdir. Eins og hæstv. samgönguráðherra benti réttilega á hefur Sundabraut verið á aðalskipulagi Reykjavíkur í 23 ár og málið hefur verið að þvælast á milli. Menn hafa komið með nýjar og nýjar hugmyndir og það er á ábyrgð samgönguráðherra hverju sinni að höggva á þann hnút sem um er að ræða, að taka ákvarðanir og byrja framkvæmdir. Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum er vilji allt sem þarf.

Akleiðir að og frá höfuðborgarsvæðinu eru löngu sprungnar. Það er forgangsatriði, hagsmunamál allra landsmanna, að vikið verði að þessu. Ég spyr hæstv. samgönguráðherra: Ætlar hann að beita sér fyrir því að framkvæmdir við Sundabraut verði (Forseti hringir.) hafnar sem fyrst?