135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

Sundabraut.

[14:36]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann veitti við þeim spurningum sem ég lagði fram svo langt sem þau náðu. Eins og hæstv. ráðherra benti á gæti hann gert sig vanhæfan — hversu fáránlegt sem það hljómar nú að ráðherra megi ekki hafa skoðanir á því hver forgangsröðunin eigi að vera í samgöngumálum — en eins og hann benti á þá er löggjöf á bak við þetta sem getur valdið því að hann verði vanhæfur.

Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort við hv. þingmenn þyrftum ekki að beina fyrirspurnum til forsætisráðherra um það hvert stefnumið ríkisstjórnarinnar væri í málefnum Sundabrautar. Það er alveg ljóst að Reykjavíkurborg hefur markað stefnuna og við þurfum að fá skýr skilaboð frá ríkisstjórninni um það hvert beri að stefna í samgöngumálum.

Hæstv. forseti. Af því að hæstv. ráðherra rifjaði upp stefnumið Framsóknarflokksins, sem voru botngöng, þá er það alveg rétt að sá möguleiki hefur verið kannaður. Rætt var um að hugsanlega væri berglagið ótraust samkvæmt nýlegum skrifum fræðimanns í þeim efnum. Ég vil því benda hæstv. ríkisstjórn á að búið er að kanna hugmynd Framsóknarflokksins um botngöng. Ef til þess kæmi að ekki væri hægt að fara jarðgangaleiðina væri hægt að nýta það fyrirheit Framsóknarflokksins á sínum tíma að fara í botngöng.

Mér finnst það út af fyrir sig stór áfangi að borgarstjórn Reykjavíkur skuli hafa náð sameiginlegri niðurstöðu um þetta. Það er alveg rétt, sem hv. þingmenn hafa bent á, að nú er mikilvægt að samgönguyfirvöld drífi í því að keyra umhverfismatið í gegn þannig að hægt verði að bjóða þessa mikilvægu framkvæmd út hið allra fyrsta. Það er mikill vilji fyrir því í samfélaginu að farið verði í þessa framkvæmd og það er mikil þörf, bæði af öryggisástæðum og (Forseti hringir.) umferðarlegum ástæðum, að hið fyrsta verði farið í þessa framkvæmd. (Forseti hringir.) Ég fagna því, hæstv. forseti, að þverpólitísk samstaða (Forseti hringir.) skuli vera hér í þingsal Alþingis, að mér heyrist, um að fara ytri leiðina eins og borgarstjórn hefur lagt til.