135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

rafræn eignarskráning verðbréfa.

476. mál
[14:41]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Aðdragandinn að þessu máli er sá að hér fyrr í vetur á síðastliðnu ári var töluverð umræða og talsvert deilt um heimildir fyrirtækja til annars vegar að skrá hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðlum og hins vegar til að gera upp í erlendum gjaldmiðlum og var mikið um þetta rætt. Niðurstaða þeirrar umræðu að hluta til var sú að það væri uppi ákveðin eyða í íslenskri löggjöf hvað þetta varðaði og sérstaklega hvað varðaði eignarskráningu hlutafjár í erlendum gjaldmiðlum.

Það var úr að ég skipaði nefnd til að hafa snör handtök og fara í málið. Hún var undir forsæti Jóns Sigurðssonar fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóra og hagfræðings og hins vegar fulltrúa frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja. Þessi nefnd vann ákaflega hratt og vel og skilaði af sér niðurstöðu núna fyrir tæpum mánuði síðan í skýrsluformi og tillögum að lagafrumvarpi til að eyða þessari óvissu um rafræna eignarskráningu verðbréfa og skráningu hlutafjár í erlendum gjaldmiðlum. Eftir skoðun var það frumvarp flutt og kynnt ríkisstjórn sem samþykkti málið og vísaði því til þingflokka og nú mæli ég fyrir þessu frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, mál nr. 476 á þingskjali 758.

Í íslenskum lögum er ekki að finna neina takmörkun á því í hvaða gjaldmiðli skuldabréf eða önnur verðbréf skuli gefin út. Hlutafélagalög, nr. 2/1995, heimila hlutafélögum sem hafa fengið samþykki fyrir skráningu á skipulegum verðbréfamarkaði að ákveða hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðli. Sama gildir um önnur hlutafélög sem fengið hafa heimild ársreikningaskrár til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Ákvörðun um það hvort hlutafé skuli skráð í erlendri mynt er í lögunum falin hlutahafafundi. Hlutafé má samkvæmt lögunum ákveða í eftirtöldum gjaldmiðlum auk íslensku krónunnar: Evru, bresku pundi, danskri, norskri og sænskri krónu, bandaríkjadal, japönsku jeni og svissneskum franka. Þess má geta að það var rætt um það í þessari nefnd hvort það ætti ekki í framtíðinni að breyta þessu ákvæði þannig að það væri engin upptalning á því í hvaða gjaldmiðlum mætti gera upp heldur væri það ótakmarkað.

Ákveði hlutafélag að skrá hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðli kveður 2. mgr. 27. gr. hlutafélagalaganna á um innköllun útgefinna hlutabréfa og útgáfu nýrra bréfa í þeirra stað í hinum nýja gjaldmiðli. Greinin kveður beinlínis á um að sambærilegar breytingar skuli gera sé um rafræna skráningu á hlutum að ræða. Því verður ekki annað séð en að löggjafinn telji ekkert því til fyrirstöðu að hlutabréf megi skrá í erlendum gjaldmiðli í íslenskri verðbréfamiðstöð.

Vandamálið varðandi verðbréf í erlendum gjaldmiðli er hins vegar hvar og hvernig peningalegt uppgjör þeirra eigi að fara fram þannig að fyllsta öryggis sé gætt og um þennan feril má geta að voru talsverðar umræður í fyrra og nokkrar deilur og framkvæmdin var stirð og tók langan tíma en ætti ef þetta mál gengur fram að verða gagnsæ og skýr og sá vafi að heyra sögunni til.

Einu ákvæðin sem beinlínis fjalla um uppgjör og efndalok verðbréfaviðskipta í íslenskum lögum eru í lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Í 15. gr. þessara laga er Seðlabanka Íslands falið að annast endanlegt greiðsluuppgjör rafbréfaviðskipta reikningsstofnana sem aðild eiga að verðbréfamiðstöð. Í 15. gr. eru verðbréf skráð í erlendum gjaldmiðli ekki nefnd sérstaklega og því eðlilegt að skilja greinina þannig að hún eigi fyrst og fremst við um uppgjör viðskipta með verðbréf í íslenskum krónum. Þannig er til komin eyða í íslenskri löggjöf að þessu leyti sem veldur óvissu og tefur framgang viðskipta með verðbréf sem skráð eru í erlendum gjaldmiðli hér á landi.

Þess vegna er mjög brýnt er að setja sem fyrst ákvæði í íslensk lög um uppgjör viðskipta með verðbréf sem skráð eru í erlendum gjaldmiðlum svo slík viðskipti geti farið skipulega og örugglega fram með milligöngu íslenskra verðbréfamiðstöðva, en allmörg íslensk hlutafélög sem skráð eru á verðbréfamarkaði Kauphallar Íslands hafa þegar fengið heimild hluthafafunda til þess að ákveða hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðli og við því er búist að fleiri bætist í hópinn.

Eins og ég nefndi skipaði ég nefndina til að undirbúa þessa lagasetningu í desember og hún skilaði áliti sínu og tillögum um uppgjör viðskipta með verðbréf sem skráð eru hjá Verðbréfamiðstöð Íslands í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum. Þess má geta til upplýsingar að nefndinni var kunnugt um að bæði Seðlabanki Íslands og Verðbréfaskráning Íslands hf. hafa kynnt sér þá tilhögun sem sænska verðbréfamiðstöðin hefur komið á með samningi við Finnlandsbanka til þess að tryggja fullnaðaruppgjör á sænskum verðbréfum sem skráð eru í evrum með atbeina bankans. En Finnlandsbanki hefur að sjálfsögðu öruggan aðgang að fjármunum í evrum sem er lögeyrir í Finnlandi sem er aðili að Efnahags- og gjaldeyrisbandalagi Evrópu og þar með að evrusvæðinu og Evrópska seðlabankanum. Þetta sænsk/finnska fyrirkomulag gæti verið fyrirmynd fyrir þá tilhögun sem íslensk verðbréfamiðstöð eins og Verðbréfaskráning Íslands gæti tekið upp og boðið viðskiptaaðilum sínum til uppgjörs á viðskiptum með verðbréf sem skráð eru í evrum á Íslandi.

Í samræmi við tillögu nefndarinnar er í frumvarpinu sem mælt er hér fyrir lagt til að gerðar verði lágmarksbreytingar á 15. gr. laga um rafræna eignarskráningu sem þarf til þess að tryggt sé að tilhögun uppgjörs á viðskiptum í erlendri mynt uppfylli ströngustu íslenskar og alþjóðlegar kröfur um öryggi greiðslufyrirmæla og greiðslukerfa og jafnframt að sá aðili sem vera skal bakhjarl endanlegs greiðsluuppgjörs hafi öruggan aðgang að fjármunum í skráningargjaldmiðli verðbréfanna sem um er að ræða hverju sinni.

Lagðar eru til tvær meginbreytingar á 15. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að skýrt verði tekið fram í ákvæðinu að fyrsta málsgrein greinarinnar eigi eingöngu við verðbréf í íslenskum krónum.

Í öðru lagi er lagt til að bætt verði við ákvæðið nýrri málsgrein sem kveði á um öruggan farveg fyrir fullnaðaruppgjör viðskipta með verðbréf sem skráð eru í erlendri mynt. Þessi tilhögun verður háð samþykki Fjármálaeftirlitsins að fenginni umsögn frá Seðlabanka Íslands og uppfylli jafngildar kröfur og lög nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla.

Þá eru enn fremur gerðar tillögur um viðbótarákvæði í sömu lagagrein um eignarhald viðskiptaaðila á fjármunum í vörslu verðbréfamiðstöðva, um setningu reglna um uppgjör verðbréfaviðskipta og um samráðsnefnd fyrirtækja og stofnana á sviði verðbréfaviðskipta til þess að fjalla um málefni tengd uppgjöri og frágangi viðskiptanna.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að lýsa frekar efni þessa frumvarps og að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.