135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

rafræn eignarskráning verðbréfa.

476. mál
[14:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa sem lætur ekkert mikið yfir sér en hefur samt heilmikil áhrif og hefur heilmikið að segja. Kannski er það sem þetta frumvarp segir okkur fyrst og fremst það hversu hratt menn geta brugðist við breyttum aðstæðum hér á landi. Nefndin var skipuð í desember og hér er komið lagafrumvarp sem verður væntanlega afgreitt mjög fljótt. Það er hægt að bregðast hratt við breyttum aðstæðum og það er hægt að bregðast vel við breyttum aðstæðum. Þetta er kannski einn aðalstyrkur Íslands í samkeppni þjóðanna, þ.e. hvað við höfum möguleika á að bregðast hratt og vel við enda hefur það sýnt sig í útrás íslenskra fyrirtækja að svo er.

Þetta frumvarp er framhald á nokkrum frumvörpum, til dæmis þeirri stefnuyfirlýsingu að lækka skatta á hagnað fyrirtækja úr 18% í 15%. Við erum búin að afgreiða úr hv. efnahags- og skattanefnd frumvarp um skattlagningu hagnaðar af sölu hlutabréfa sem er verulega mikil einföldun og bætt staða þeirra fyrirtækja sem starfa í útrás.

Til viðbótar vil ég gjarnan nefna vegna þess hvað umræðan hefur verið á neikvæðum nótum undanfarið að hér er staða ríkissjóðs náttúrlega mjög sterk og hér á landi er ekkert atvinnuleysi. Hér er afskaplega sveigjanlegt atvinnulíf sem býr við gott og einfalt skattkerfi, svona alla vega miðað við útlöndin og lága skatta. Og svo er nýbúið að gera kjarasamninga sem eru óvenju skynsamlegir og ættu einir sér að vera mjög jákvæðir fyrir efnahagslífið. Svo hefur komið fram að bankarnir íslensku eru mjög sterkir og hafa staðist prófanir sem Fjármálaeftirlitið hefur sett á þá til þess að prófa hvernig þeir ráða við ýmiss konar áföll. Svo er hér lífeyrissjóðakerfi og mjög gott velferðarkerfi bæði varðandi heilbrigðismál og menntamál þannig að staðan er í sjálfu sér mjög góð til þess að mæta þeim áföllum sem um allan heim dynja á öllum þjóðum, ekki bara á okkur.

Ég vil undirstrika að þetta frumvarp er mjög gott innlegg inn í þessa umræðu og sýnir alveg sérstaklega þann sveigjanleika og hraða sem íslenskt atvinnulíf býr við til þess að bregðast við óvæntum atburðum.