135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

477. mál
[14:55]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er lagt til í frumvarpi að skerpt verði á skilaskyldu veiðikortshafa þannig að skýrsla um undangengið veiðiár sem telst frá 1. janúar til 31. desember ár hvert verði skilað eigi síðar en 1. apríl ár hvert að viðlögðum, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, þeim viðurlögum að útgáfa nýs veiðikorts er óheimil ef skýrsla ekki berst fyrir tilsettan tíma og ef hún berst eftir lögmæltan skiladag þá er bætt á sérstakt sektargjald sem hækkar nýtt veiðikort úr 3.500 kr. í 5.000 kr.

Það er gríðarlega mikilvægt að skerpa á þessari skilaskyldu og setja inn í lögin — það er nú kannski ekki alltaf nauðsynlegt að setja allt inn í lög. Maður hefði haldið að það mætti gera þetta með öðrum hætti — en það er nauðsynlegt að hafa einhvern hvata til þess að þessar niðurstöður, veiðiskýrslurnar, skili sér á réttum tíma.

Þetta hefur verið þannig til þessa að veiðiskýrslur, við skulum segja, fyrir árið 2007, hafa ekki skilað sér fyrr en í september, október á árinu 2008 sem gerir allar rannsóknir sem byggjast á veiðinni mjög erfiðar og áætlanir til þess að byggja veiði næsta veiðiárs á verða þá ómögulegar. Þá verða menn að byggja á veiði áranna þar á undan og þegar um skammlífa fugla er að ræða þar sem miklar sveiflur eru, eins og til að mynda rjúpnastofninn, þá hefur þetta vissulega hamlað rannsóknum og gert hugsanlega tilmæli rannsóknaraðilanna óskýrari en ella þarf að vera. Ég fagna því að skerpt skuli á þessari skilaskyldu og það skuli innbyggður hvati um þetta.

Ég vil taka fram að fyrir löngu er kominn að mínu viti tími til að endurskoða þessa löggjöf frá grunni. Hér erum við að ræða um lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum frá 1994 að stofni til. Þessi lög eru orðin stagbætt. Það er sí og æ búið að vera að krukka í þau og það er, eins og ég segi, löngu kominn tími til að endurskoða lögin í heild. Ég vona að hv. umhverfisnefnd taki það til athugunar og hæstv. ráðherra þar með.