135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

477. mál
[14:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það gengur vel að auka skrifræðið. Ég verð að segja eins og er að ég er ekki hlynntur því máli sem liggur fyrir. (Gripið fram í.) Líður hæstv. ráðherra nokkuð illa í sæti sínu, nei. Nei, hæstv. forseti. Ég held að þetta mál þurfi skoðunar við. Ég átta mig ekki á því hvernig á að taka upp þá reglu að ef menn hafa af einhverjum ástæðum ekki skilað veiðiskýrslu fyrir síðasta ár, jafnvel af því að þeir hafi bara ekkert veitt, þá skuli þeir ekki geta fengið gefið út veiðikort fyrir næsta ár ef ég skil málið rétt. Ég er ekki viss um að ég geri það.

Síðan er það þetta sjálfvirka ákvæði um að menn geti hækkað þessi gjöld upp í 5.000 kr. úr 3.500, ég velti því fyrir mér hvort það sé eðlilegt að setja þá aðferð í lög. Það vakna líka spurningar um 2. gr. þar sem talað er um að mennta þá sem geta gerst leiðsögumenn í hreindýraveiðum en það er Umhverfisstofnun sem á að halda slík námskeið. Nú þekki ég lítið til hreindýraveiða og veit ekki mikið um hvernig þær fara fram. En ég held þó að ég viti að þeir sem hafa verið í þessum störfum á undanförnum árum hafi með einhverjum hætti hlotið viðurkenningu sem leiðsögumenn.

Ég spyr að því, hæstv. forseti, hvort á Umhverfisstofnun starfi margir sem geti kennt það fag eða hvort slík námskeið hafi verið haldin fram að þessu, sem verið er að tala um hér í 2. gr., hæstv. forseti.