135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

477. mál
[15:10]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Það er rétt, herra forseti, hjá hv. þingmanni að þetta tekur til fleiri dýrategunda en þeirra sem voru nefndar hér áðan. Margir fara t.d. á gæsaskytterí eða annað slíkt. Veiðikortakerfið er auðvitað til þess að hafa stjórn á veiðum sem eru stundaðar með skotvopnum. Ég hygg að við séum nokkuð (SJS: Og háfum.) — og háfum, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, með tækjum skyldum við þá kannski segja hverrar tegundar sem þau eru. Það þarf kannski ekki að hafa mikið eftirlit með þessu en eitthvert eftirlit þarf að hafa með því að veiðarnar séu rétt stundaðar, til þess m.a. eru leiðsögumenn sendir með hreindýraveiðimönnum, og til þess að veiðikortin þjóni því markmiði sínu að aðstoða við að safna upplýsingum um veiðarnar og séu um leið hluti af þeirri fjármögnun sem vissulega þarf að vera fyrir hendi til að stunda rannsóknir á þessum tegundum dýra. Þannig hefur það virkað og að mínu viti virkar þetta kerfi ágætlega.