135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

477. mál
[15:13]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að veiðikortakerfið sem slíkt svarar ekki þessum spurningum en það veitir okkur yfirlit yfir fjölda veiðimanna, magn veiðanna í hverri tegund, hvenær og hvar veiðarnar eru stundaðar og það eru mjög mikilvægar upplýsingar að hafa til að vinna úr. Síðan er það þannig að tekjurnar af kerfinu eru nýttar til að rannsaka betur þá stofna sem um ræðir og það eru að sjálfsögðu vísindarannsóknir, stofnstærðarrannsóknir og aðrar slíkar rannsóknir sem fara fram kerfisbundið á hverju einasta ári og byggja upp þann þekkingargrunn sem við byggjum ákvarðanir okkar á við það að ákvarða veiðar, t.d. á rjúpunni á haustin, eða friðun ef út í það er farið. Deilurnar um það hvort hægt sé að mæla stofnstærð tiltekinna tegunda, ég ætla mér ekki þá dul að fara út í það hér að ræða það. Það er angi af sömu umræðu og á sér stað í hvert skipti sem rætt er um rannsóknir Hafrannsóknastofnunar og í sjálfu sér eru vísindarannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands á þessum dýrastofnum í eðli sínu ekkert öðruvísi. Ég þekki líkönin ekki nákvæmlega, kann ekki þannig skil á þeim, en þessar rannsóknir verða að fara fram ef við ætlum að hafa einhverja hugmynd um hvernig við göngum á auðlindir landsins og þar með talið þessa dýrastofna.