135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:15]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á nokkrum lögum um tekjuskatt, staðgreiðslu, tryggingagjald og virðisaukaskatt sem er frá meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar og er að finna á þingskjali 775.

Á þingskjalinu kemur fram hvaða gestir komu til nefndarinnar og einnig þau álit og umsagnir sem nefndinni bárust frá ýmsum aðilum. Meginefni frumvarpsins er tvíþætt. Eru þar lagðar til breytingar annars vegar á reglum um skattlagningu söluhagnaðar og hins vegar skattaumsýslu stórfyrirtækja. Þá eru í frumvarpinu lagðar til minni háttar breytingar á virðisaukaskattslögum.

Í nefndarálitinu koma fram ýmis atriði sem ég ætla ekki að lesa nákvæmlega en vísa í nefndarálitið.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að ákvæði 2. mgr. b-liðar 2. gr. frumvarpsins um takmörkun á frádráttarbærni kostnaðar vegna söluhagnaðar verði breytt og þann kostnað sem þar er tilgreindur verði heimilt að draga frá öðrum tekjum. Meiri hlutinn telur að óbreyttu að ákvæðið geti valdið vandkvæðum í skattframkvæmd þar sem erfitt getur reynst að greina kostnað vegna söluhagnaðar frá öðrum kostnaði á söluári, til að mynda kostnað vegna arðgreiðslna. Meiri hlutinn telur jafnframt æskilegt og í anda frumvarpsins að kveða skýrt á um það að ekki sé heimilt að draga söluhagnað frá skattskyldum tekjum fyrr en yfirfæranlegt rekstrartap hefur verið jafnað út, þ.m.t. tap sem myndast hefur á tekjuárinu, einnig að ekki sé heimilt að draga tap umfram hagnað af sölu hlutabréfa frá tekjum eða mynda með þeim hætti yfirfæranlegt tap.

Meiri hlutinn fellst á að rök séu fyrir því að láta meginreglu frumvarpsins um frádráttarbærni söluhagnaðar taka einnig til afleiðuviðskipta sem byggjast á hlutabréfum enda sé um ígildi hlutabréfaviðskipta að ræða og leggur meiri hlutinn því til samsvarandi orðalagsbreytingu á 1. og 2. gr. frumvarpsins.

Þá fagnar meiri hlutinn þeirri tilhögun sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að komið verði á fót sérhæfðri stjórnsýslueiningu hjá embætti skattstjórans í Reykjavík til að annast skattaumsýslu lögaðila sem eru yfir tilteknum stærðarmörkum. Slík sérhæfing sé nauðsynleg til að geta brugðist hratt og faglega við örum breytingum sem verða á alþjóðlegum markaði og hún muni skila atvinnugreininni betri þjónustu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson og Steinunn Þóra Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið skrifa hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Gunnar Svavarsson, Magnús Stefánsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Lúðvík Bergvinsson.

Þá vildi ég gjarnan segja nokkur orð frá eigin brjósti. Ég tel mjög mikilvægt fyrir atvinnulífið að í landinu séu starfandi eftirlitsstofnanir sem eru hraðvirkar, skilvirkar, réttlátar og með reglum sem eru rökréttar. Það er mjög mikilvægt fyrir aðila sem starfa á markaði að vita hvað má og hvað ekki og þeir þurfa að vita það hratt. Þess vegna styð ég þessa breytingu þar sem hér er gert ráð fyrir að skatteftirlit færist á eina hendi gagnvart stórum aðilum sem vinna í útlöndum. Þannig næst ákveðin sérhæfing sem er mjög mikilvæg fyrir atvinnulífið.

Ég legg líka áherslu á það og hef gert það mörgum sinnum að aðrar eftirlitsstofnanir eins og Fjármálaeftirlit, Samkeppniseftirlit og fleiri stofnanir séu skilvirkar og hraðvirkar og vinni samkvæmt rökréttum reglum þannig að í atvinnulífinu sé strax ljóst hvað má og hvað má ekki.