135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:46]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú erum við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki ósammála um öll þessi atriði, þvert á móti. Ég held að mikilvægt sé að hafa skatttekjur í landinu af atvinnurekstri, m.a. til þess að standa undir velferðarkerfinu. Reynsla okkar á undanförnum árum hefur verið sú að með því að lækka skattprósentuna höfum við stækkað kökuna þannig að meiri skatttekjur hafa skilað sér til hins opinbera til þess að standa undir sameiginlegri þjónustu. Það er því ekki eins og skattstofninn sé óumbreytanlegur fasti sem stjórnmálamennirnrir taka bara ákvörðun um hvað þeir ætli að taka stóra sneið af. Það að lækka skattana getur verið leið til þess að stækka kökuna þannig að minni sneið af stærri köku skilar meiru til að standa undir sameiginlegum þörfum.

Ég tek svo undir það sem hv. þingmaður sagði að það er vissulega kostur fyrir atvinnurekstur að vera í löndum á borð við okkar þar sem stjórnarfar er stöðugt og velferðarsamfélagið öflugt. Það er kostur. Það fylgja því hins vegar ýmsir aðrir ókostir fyrir fyrirtæki að vera á Íslandi. Þar á meðal er fjarlægð frá mörkuðum, það eru slíkir þættir sem enn skipta nokkru máli. Í ljósi þess, sem allir gera sér grein fyrir, að fjármagn og atvinnurekstur er hreyfanlegri en nokkru sinni fyrr þurfum við að vera betur á verði í skattalegri samkeppni og hugsanlega standa okkur betur að ýmsu leyti en aðrar þjóðir.

Þegar við síðan tölum um almennt skattaumhverfi horfum við á það að fyrirtækjaskattar fara lækkandi. Það forskot sem við náðum þegar við fórum niður í 18% hefur minnkað fyrir utan það að lönd eins og Írland eru enn með töluvert lægri prósentu en við, 12,5% á almennan atvinnurekstur, svo ekki sé minnst á ríki Mið- og Austur-Evrópu sem sum hver eru með lægri prósentu (Forseti hringir.) og hafa náð miklum árangri (Forseti hringir.) á síðustu árum, m.a. á þeim forsendum.