135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

samgönguáætlun.

292. mál
[16:42]
Hlusta

Frsm. samgn. (Ólöf Nordal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti samgöngunefndar um frumvarpi til laga um samgönguáætlun.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið marga gesti á sinn fund og fjölmargar umsagnir.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á framkvæmd samgönguáætlunar. Í fyrsta lagi er ætlunin að gera skýrara að samgönguáætlun er í raun ein áætlun til tólf ára og að hver fjögurra ára áætlun er nánari sundurliðun á viðkomandi tímabili innan hennar. Í öðru lagi er lagt til að við upphaf vinnu samgönguráðs hafi ráðherra sett fram stefnumið sín og fjárhagsramma. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að heimilað verði að endurskoða samgönguáætlun oftar en á fjögurra ára fresti. Í fjórða lagi er leitast við að skapa skýrari ramma um samgönguáætlun og þau markmið sem unnið er að með henni. Í fimmta lagi gefst möguleiki á annars konar framsetningu samgönguáætlunar en með þeirri kaflaskiptingu sem nú er.

Á fundum nefndarinnar kom fram að samgönguáætlun er rammaáætlun og að hver fjögurra ára áætlun er framkvæmdaáætlun innan hennar en það er áherslubreyting frá gildandi lögum. Telur nefndin það markmið eðlilegt en getur ekki fallist á að unnt sé að binda hendur löggjafans þannig að Alþingi sé óheimilt að samþykkja fjögurra ára áætlun án þess að tólf ára áætlun hafi verið samþykkt á Alþingi. Þetta var nokkuð rætt í nefndinni og alger samstaða um að þarna væri gripið fram fyrir hendur Alþingis með óviðunandi hætti. Því leggur nefndin til breytingu á frumvarpinu í þá átt sem ég hef skýrt.

Þá ræddi nefndin á fundum sínum um samgönguáætlun en þar skal mörkuð stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu 12 árin. Nefndin taldi nauðsynlegt að taka til frekari athugunar fleiri atriði en greint var frá í frumvarpinu. Sérstaklega var talin þörf á því að gera almenningssamgöngum hærra undir höfði og ákveðið að leggja til að þær yrðu sérstaklega nefndar inni í frumvarpinu um samgönguáætlun. Einnig taldi nefndin nauðsynlegt að gera umhverfismálum hærra undir höfði og setti sambærilegt ákvæði þar að lútandi inn í frumvarpið. Ég vonast til að þeim breytingum verði vel tekið á hinu háa Alþingi.

Þá kom fram að litið er á samgöngur sem eina heild og ekki er um að ræða kaflaskiptingu eftir einstökum greinum heldur eftir svæðum. Það telur nefndin, og tek ég undir að það, mjög til einföldunar og til bóta.

Á vettvangi nefndarinnar var nokkuð rætt um samgönguráð eins og það liggur fyrir núna. Í frumvarpinu er í sjálfu sér ekki gerð nein breytingu á því en nefndarmenn töldu samt sem áður tímabært að horft yrði á skipan samgönguráðs. Það er þannig núna að menn hafa nánast sjálfkjörinn rétt til setu í ráðinu. Nefndin lagði ekki til sérstaka breytingu á því á þessu stigi málsins en fannst ástæða til að nefna í nefndaráliti að samgönguráðuneyti og Alþingi, ef svo ber undir, beiti sér fyrir því að endurskoðun fari fram á skipan ráðsins þannig að það endurspegli betur þá aðila sem hafa hagsmuna að gæta í þessu efni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef stuttlega gert grein fyrir og nánari upplýsingar eru um á þskj. 762. Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Karl V. Matthíasson, Árni Þór Sigurðsson, Árni Johnsen, Valgerður Bjarnadóttir, Björk Guðjónsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Guðjón Arnar Kristjánsson. Guðni Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.