135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í kjölfar gríðarlegra verðhækkana á eldsneyti hafa sprottið upp mótmæli um allt land. Atvinnubílstjórar hafa verið þar fremstir í flokki og lamað samgöngur auk þess að standa fyrir kröftugum mótmælum á Austurvelli í gær. Það er þungt hljóð í fólki og það ekki að ástæðulausu. Meðalútsöluverð á bensínlítranum hefur til að mynda hækkað á einu ári um rúmlega 35 krónur. Þá hefur útsöluverð á dísilolíu hækkað um heilar 44 krónur. Hækkanir og heimsmarkaðsverð á olíu og gengisfall íslensku krónunnar eiga stærstan þátt í hækkuninni. Það sem hins vegar svíður mest er að tekjur ríkissjóðs af umferð landsins munu hækka um allt að 1,6 milljarða á þessu ári í formi virðisaukaskatts á eldsneyti. Nú er svo viðbúið að heimili og íslenskt atvinnulíf geti ekki tekið við meiri verðhækkunum. Almenningur hefur fengið nóg og nú krefst hann aðgerða. Það er með öllu ólíðandi að ríkisstjórn landsins láti hinn þunga bagga hækkananna hvíla á herðum fólksins í landinu.

Við framsóknarmenn höfum lagt fram tillögur um að lækka álögur á eldsneyti til að mæta þeim efnahagsvanda sem nú ríkir. Við lögðum einnig fram í haust og ég sem flutningsmaður frumvarp um að 50% olíugjalds á skilgreindum flutningsaðilum verði endurgreidd. Það er orðið vel tímabært að það frumvarp verði tekið til umræðu á þinginu.

Hvað ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að gera í þessu brýnasta hagsmunamáli almennings í dag? Ætlar hann að lækka álögur á eldsneytisverðið og koma til móts við almenning í landinu eða ætlar hann að festa sig endanlega í sessi sem mesti skattpíningarflokkur þjóðarinnar? Þjóðin krefst svara og nú er ekki tími fyrir ákvarðanatökufælni sjálfstæðismanna eða samræðustjórnmál eða blaður Samfylkingarinnar. Nú þurfa verkin að tala.