135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:44]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að auka í kvótann í þessari umræðu en þó ætla ég að koma hér fram en ekki sem fulltrúi skattpíningarflokksins, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson nefndi hér áðan. Það er nú farið að fljóta yfir bakkana, held ég, þegar Sjálfstæðisflokkurinn er sakaður um það af hv. þingmönnum að vera flokkur skattpíningar í landinu. Þá held ég að umræðan sé nú að verða töluvert öfugsnúin. (Gripið fram í.)

Það sem hér er til umræðu, og kom ágætlega fram í máli hv. þm. Gunnars Svavarssonar, er að þau mótmæli sem standa yfir núna eru með þeim formerkjum að Félag flutningabílstjóra hefur forgöngu um þau sem er gott og vel. Þeir eru þá fulltrúar almennings í landinu, skyldum við ætla, að mótmæla hækkunum á bensíni og olíu á heimsmarkaði.

Hvað höfum við til ráða í því? Jú, vissulega ýmislegt. Í fyrsta lagi að krukka í virðisaukaskattskerfið eins og hv. þingmaður er að leggja til. Það er ekki vilji til þess. Í annan stað að lækka eða fella niður olíugjald af bensíni og olíuvörum. Það kann vel að vera að það séu tæk úrræði. Ég vil benda á og ítreka það hér sem kom fram í máli hvor tveggja fjármálaráðherra og samgönguráðherra að það stendur yfir vinna í því efni að breyta gjaldtöku af olíu og bensíni, m.a. til að reyna að haga málum með þeim hætti að menn nýti umhverfisvænni olíu eða eldsneytisgjafa, að menn nýti farartæki sem eru meira orkusparandi frá því sem er í dag o.s.frv. Það er ýmislegt verið að gera.

Ég legg áherslu á það í því ástandi sem nú er, þar sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson opnaði þessa umræðu á því að þetta hvíldi á herðum almennings eða fólksins í landinu, að það er fleira en eldsneytisverð sem hvílir á (Forseti hringir.) herðum almennings í landinu. Það er efnahagsástandið eins og það leggur sig. (Gripið fram í.)