135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:48]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að vekja athygli á þessu brýna máli í dag. Svo virðist sem ríkisstjórnin sé eitthvað aðeins að rumska í þessu máli. Hafi ríkisstjórnarflokkarnir ekki tekið eftir því þá hefur eldsneytisverð í landinu rokið upp á síðustu mánuðum. Nú koma fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í púlt Alþingis og bjóða til kaffiboðs. Kaffiboð skal það vera og það á að skoða hlutina.

Almenningur er búinn að fá nóg af því að horfa upp á þessa þróun. Það er skýlaus krafa frá almenningi, ef stjórnarliðar hafa ekki orðið varir við það að undanförnu, að álögur á eldsneyti lækki tímabundið. Það er hárrétt sem hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar … (Gripið fram í: Hvað borgar þú þeim?) Ef ég fengi frið, hæstv. forseti, til að tala. En hv. formaður fjárlaganefndar sagði áðan að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefði lagt til á sínum tíma, árið 2002, til að koma til móts við það ástand sem þá var uppi, að lækka gjöld af eldsneyti hér á landi. Hvers vegna tekur ríkisstjórnin sér ekki tak í þessum efnum og lækkar álögur á eldsneyti tímabundið? Það eru spurningar fólksins í landinu.

Fólk vill sjá aðgerðir í þessu því hvað þýðir stighækkandi eldsneytiskostnaður fyrir heimilin í landinu? Verðbólgan hækkar. Skuldir heimilanna hækka, kjör almennings munu versna og það eru engin kaffiboð haldin vítt og breitt um landið þar sem fólk mótmælir sofandahætti ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki. Stjórnarandstaðan krefur fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna um raunverulegar aðgerðir í þessum efnum en þá er boðað til kaffiboðs, fólki sagt að það skuli vera rólegt, hætta að mótmæla og sætta sig við ástandið eins. En stjórnarandstaðan hér á þingi sættir sig ekki við það andvaraleysi sem ríkisstjórnarflokkarnir sýna í þessu máli.