135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:55]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér kemur fram, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon óskaði eftir því á mánudag að fundað yrði með utanríkisráðherra áður en leiðtogafundurinn hæfist. Því miður gafst þess ekki kostur enda fóru ráðherrar af landi brott í morgun og ekki náðist að koma á fundi í gær. Það sem ég vil undirstrika er að utanríkisráðherra hefur markað skýra stefnu um aukið samráð við utanríkismálanefnd Alþingis. Það er ljóst að vilji utanríkisráðherra stendur til að rækja samráðsskylduna samkvæmt 24. gr. þingskapalaga við utanríkismálanefnd. Hér virðist hafa orðið handvömm í undirbúningi þessa máls og er rétt að harma það. Ég tek undir með hv. þingmanni með að það er æskilegt að utanríkismálanefnd sé upplýst um stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar áður en fundir af þessum toga fara fram.

Á umræddum fundi verða rædd mikilvæg atriði. Við bindum vonir við að funda með utanríkisráðherra þegar ráðherrarnir koma heim af fundinum. Það er mikilvægt að vel takist til í þeim umræðum sem nú fara fram um stækkun Atlantshafsbandalagsins. Stækkunarferli Atlantshafsbandalagsins hefur hingað til, frá því að það hófst 1997, skilað miklum árangri í að draga úr viðsjám í Evrópu, auka friðsamleg samskipti ríkja, draga úr ágreiningi og deilumálum og stuðla að aukinni virðingu fyrir mannréttindum. Það er mikilvægt að áfram verði haldið með stækkunarferlið með yfirveguðum hætti þannig að við höldum áfram að njóta öruggari og sterkari Evrópu í krafti þess ferlis.