135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[14:00]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hernaðarbandalagið NATO tryggir ekki stöðugleika og frið heldur viðheldur það ógnarjafnvægi og hernaðarhyggju. En ég er komin í þennan ræðustól vegna þess að ég get ekki orða bundist yfir þeim nýja stíl sem forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hafa tileinkað sér með því að þeir ferðast nú í einkaþotum milli landa í stað þess að ferðast í farþegaflugi eins og allur almenningur. Þotulið eða jetset er orð sem er notað yfir þann hóp manna sem flakkar á milli landa og viðburða sem allur almenningur á ekki erindi á og hefur ekki efni á að njóta. Nú er það einkum notað um þann hóp manna sem á sínar eigin einkaþotur og það eru aðeins örfá missiri síðan Íslendingar komust í kynni við þennan nýja ferðamáta en nokkrir útrásarmógúlanna eiga einmitt einkaþotur og jafnvel einkaþyrlur sem eru staðsettar á Reykjavíkurflugvelli íbúum í grenndinni til lítillar ánægju. En það er heldur ekki nýtt að útrásarmógúlarnir og jetset-liðið bjóði vinum sínum í skreppitúra. Ég man ekki betur en forseti lýðveldisins hafi þegið einn slíkan skreppitúr með Abramovich til Bretlands á sínum tíma við litla hrifningu landans.

Herra forseti. Hver skutlaði ráðherrunum á NATO-fundinn? Hvað kostaði sú ferð og hver borgaði hana? Ég tel mjög brýnt að fá svör við þessum spurningum og ég mun óska eftir því að fá ítarlegar skýringar og upplýsingar um þá ferðagleði sem einkennir ráðherra í ríkisstjórninni og þann nýja stíl sem þeir hafa nú tileinkað sér með þessari ferð.