135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[14:04]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Fyrst um einkaþoturnar. Mér skilst að sá ferðamáti hafi reynst vera ódýrastur í þessu tilfelli, það get ég sagt um það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var að gagnrýna.

En varðandi olíuverðið þá hefur það hækkað mikið í heiminum á undanförnum árum og sérstaklega á síðasta hálfa ári. Ástæðan er mikil aukning á neyslu olíu í Indlandi og sérstaklega í Kína. Einnig hefur verð á dísilolíu á heimsmarkaði hækkað meira en bensínverð og það er vegna aukinnar notkunar á dísilolíu. Þessu breytum við ekki hér á Íslandi, við breytum þessu ekki neitt. Sérstöku vörugjaldi á bensín og olíur var breytt úr prósentum í krónutölu árið 1999 sem þýðir að álögur ríkisins hafa hlutfallslega farið mjög lækkandi. Vilji menn breyta þessum vörugjöldum og lækka þau til að niðurgreiða olíur og bensín og auka og viðhalda neyslu á olíu og bensíni mundi ég frekar vilja skoða önnur mál eins og t.d. barnaföt og annað slíkt.

Nú er það þannig að virðisaukaskattur leggst á nánast alla neyslu heimilanna og það er spurning hvar menn vilja lækka virðisaukaskattinn. Vilja þeir lækka hann á bensín og olíur og niðurgreiða það eða lækka hann á barnaföt? Ég segi þá frekar á barnafötin. Ég mundi hins vegar vilja lækka virðisaukaskattinn almennt.

Ef ég væri umhverfisverndarsinni og tryði á það að koltvíoxíðsmengunin valdi hlýnun jarðar er alveg ljóst að menn geta ekki verið fylgjandi því að lækka álögur á bensín og olíu og viðhalda neyslu á þeirri vörutegund. Þær aðgerðir sem hér eru í gangi bitna á saklausum borgurum og hafa ekki nokkur einustu áhrif á hvorki olíufurstana í Arabíu eða Rússlandi né á neytendur í Kína.