135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

virkjunarkostir á Vestfjörðum.

425. mál
[14:17]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er vissulega verið að ræða mjög áhugavert mál. Það er mikil þörf á því að tekið sé á í orkumálum á Vestfjörðum en eins og kom hér fram og margir vita er fjórðungurinn aðeins með eigin framleiðslu á um 30% af þeirri orku sem þar er nýtt, annað þarf að sækja eftir öðrum leiðum eða línum inn á svæðið.

Það er auðvitað dapurlegt hve rannsóknum við að kortleggja og vinnu við að skoða virkjunarkosti hefur lítið verið sinnt á undanförnum árum. Það má minna á svæði eins og Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum sem er þó nokkuð mikið vatnsfall og býr að vatnasvæði sunnan Drangajökuls. Ég hef minnst á það áður, hæstv. forseti, að ég tel ekki mikla eftirsjá í því grjóti sem þar er og þarf að fara á kaf á hálendi sunnan Drangajökuls.