135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

Blönduvirkjun.

428. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Í skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra um raforkumálefni kemur ýmislegt fróðlegt fram, m.a. eru upplýsingar um flutningstap á framleiddri raforku við það að flytja hana eftir strengjunum frá þeim stað þar sem hún er framleidd og eitthvert annað, stundum um langan veg.

Blönduvirkjun er fjórða stærsta aflvirkjun landsmanna. Uppsett afl er um 1.000 gígavattstundir á ári. Framleiðslan er langtum meiri en þörf er á á svæðinu í kring. Þess vegna er rafmagnið sem framleitt er í Blönduvirkjun fyrst og fremst flutt suður á höfuðborgarsvæðið, ef ég veit rétt. Það leiðir auðvitað hugann að því hvert flutningstapið hefur verið á þessari löngu leið á þeim tíma sem virkjunin hefur starfað, því að ég vil draga það fram m.a. til að undirstrika skynsemina í því að nýta raforkuna sem næst framleiðslustað. Það eru miklir raforkuframleiðslumöguleikar á Íslandi og því væri skynsamlegt að skipuleggja sig í þeim efnum á þann veg að hægt væri að losa um þá raforku sem í dag er flutt hvað mest og hvað lengst frá upprunastað og nýta hana til atvinnusköpunar nær virkjuninni sjálfri.

Sem dæmi kemur fram í skýrslunni að orkutap í flutningskerfinu var 400 gígavattstundir á síðasta ári. Það er næstum því tvöfalt meira sem tapast í kerfinu við að flytja rafmagnið á milli staða en nemur heildaraflþörf Vestfirðingafjórðungs á heilu ári. Það er því umtalsvert sem tapast í kerfinu á hverju ári vegna flutnings og það er ávinningur í því ef hægt er að minnka flutningana og fá þannig rafmagn til nota sem í dag er ekki hægt að nýta. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hvar hefur orka framleidd í Blönduvirkjun helst verið nýtt síðustu ár og hvert hefur áætlað árlegt orkutap verið mælt sem GWst og hlutfall af framleiddri raforku?

2. Hvert er talið vera uppsafnað tap raforku vegna flutnings orkunnar frá virkjuninni á starfstíma hennar?