135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

Blönduvirkjun.

428. mál
[14:29]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þó að ég vildi gjarnan geta svarað þessari spurningu nákvæmlega þá er það nokkrum erfiðleikum bundið. Það má segja að í samtengdu raforkukerfi þar sem virkjanir tengjast mörgum notendum sé ekki hægt að segja nákvæmlega til um það hvar orka frá ákveðinni virkjun er nýtt. Raforkan frá Blöndustöð er auðvitað afhent inn á flutningskerfi Landsnets sem miðlar raforkunni áfram til dreifiveitna og stórnotenda. Eins og hv. þingmaður gat um er raforkuvinnsla á Norðurlandi, ef það er skoðað í heild sinni, u.þ.b. þrisvar sinnum meiri en notkunin sem þýðir að mikill meiri hluti orkunnar sem þar er framleidd, þ.e. í Blönduvirkjun, Kröflu og Laxárvirkjun, er fluttur af því svæði til annarra landshluta. Hv. þingmaður sagði suður. Aldrei fór ég suður og ekki fer öll orkan suður, en það er rétt hjá honum, hluti af henni fer suður, hluti af henni fer líka til Austurlands en líka á Vestfirði svo því sé til haga haldið. Alveg eins og það er erfitt að segja til um það hvert nákvæmlega orkan fer frá tiltekinni framleiðslustöð þá er líka svolítið erfitt að segja til um það eða eyrnamerkja flutningstapið stakri virkjun.

Hv. þingmaður nefndi tölu áðan, þ.e. um hvert tapið hefur verið. Þær upplýsingar sem ég hef, hann fór að vísu með rétt hlutfall, þ.e. að tapið hefur verið 2,9% af heildarinnmötuninni, en það er samkvæmt mínum útreikningum, a.m.k. að meðaltali síðustu þrjú ár, svolítið lægra en hv. þingmaður gat um eða í kringum 300 gígavattstundir á ári. En það er bitamunur en ekki fjár. Hins vegar, þó að menn vinni út frá 2,9% tapi sem Landsnet og íslenskir orkusérfræðingar telja eðlilegt, er þetta samt sem áður meira tap en maður sér þegar maður leitar sér upplýsinga um þessa hluti t.d. á netinu. Hægt er að benda á önnur lönd þar sem tapið er minna. Þar að auki þar sem mikill munur er á orkuvinnslu og orkunotkun, eins og á Norðurlandi, þá er svokallað jaðartap meira vegna orkuvinnslunnar, það er hærra og þess vegna tel ég, ef maður ætti að meta orkutap vegna Blönduvirkjunar eingöngu, að ekki sé ekki hægt að notast við hlutfallið 2,9% heldur tel ég, án þess að ég geti nákvæmlega sýnt fram á útreikning um það, að eðlilegt væri að nýta hlutfallið 4% a.m.k. Þannig að ef reiknað er út hlutfallslegt tap á árinu 2007 fyrir Blöndustöð gæti það verið allt að 40 gígavattstundir en á því ári voru fast að þúsund gígavattstundir unnar í stöðunni eða 940. Svo er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að þess utan eru síðan ákveðnir flöskuhálsar í kerfinu vegna veikleika byggðalínunnar, þ.e. takmarkanir á getu til að flytja afl. Á það hefur reynt og um það höfum við líka rætt hér áður. Það er nokkuð sem við þurfum líka að skoða ákaflega vel og ég hef reyndar lagt fram ákveðna stefnu um það hér í svörum mínum. Svarið við síðari hluta fyrri spurningar hv. þingmanns mundi ég telja að gæti því legið nálægt 40 gígavattstundum.

Hv. þingmaður spyr síðan hvert sé talið vera uppsafnað tap raforku vegna flutnings orkunnar frá virkjuninni á öllum starfstíma hennar. Orkuvinnsla Blöndustöðvar á starfstíma til loka árs 2007 hafa verið 12,5 teravattstundir þannig að ef ég miða við 4% sem eðlilegt taphlutfall sem ég tel að sé eðlilegt viðmið fyrir Blönduvirkjun ef hún er ein tekin, þá gæti uppsafnað orkutap losað 500 gígavattstundir. Það er talsvert meira en öll notkunin á Vestfjörðum yfir tveggja ára tímabil þannig að þar er eftir töluverðu að slægjast.

Ég er því algerlega sammála hv. þingmanni, og hef sagt það hér áður, um að auðvitað er æskilegt að þar sem orkan er framleidd sé hún nýtt líka, þ.e. í héraði. En hv. þingmaður, sem er skyggnari mörgum mönnum á stefnu iðnaðarráðherra í orkumálum, sá það af glöggskyggni sinni þegar við ræddum hér frumvarp mitt til breytinga á orkusviði að í því er einmitt fólginn möguleiki til að gera það að veruleika.