135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

umhverfisáhrif Nesjavallavirkjunar.

469. mál
[14:41]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er mín persónulega skoðun að ég tel að menn eigi ekki að borða urriðann úr Þingvallavatni. Þrátt fyrir hugsanlega kvikasilfursmengun þá eiga menn bara ekki að gera það.

En hv. þingmaður spyr mig út í það hvernig afrennsli er háttað frá Nesjavallavirkjun og í hve miklum mæli vatn rennur frá virkjun og út í umhverfið.

Því er til að svara að þær tegundir affallsvatns sem hér skipta máli eru annars vegar þéttivatnið sem er jarðgufuvökvun sem notað er til þess að knýja túrbínurnar og síðan þéttur í eimsvölum. Annars vegar er það þéttivatn og hins vegar jarðhitavökvinn, skiljuvatnið sem svo er kallað.

Frá því er skemmst að segja að þarna er samtals um 500 lítra á sekúndu að ræða sem er alveg gríðarlegt magn. Helmingurinn af því er sem sagt þéttivatn og það hefur verið sett niður í grunnar holur við Nesjavallastöðina. Það hefur þess vegna farið út í grunnvatnið og hefur örugglega leitað undan þyngdaraflinu út í vatnið.

Þegar ég flaug þarna yfir á leið minni frá Akureyri í síðustu viku var Þingvallavatn ísilagt en í hrauninu var stór vök þótt nú sé að öðru leyti mjög þykkur ís á vatninu. Þetta var stærri vök en ég hef oft séð. Ég er kannski ekki nógu tíðförull gestur þarna. En þetta er þéttivatnið. Sagt er í upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur að vegna þess að vatnið sé eimað séu engin efni í því vatni. Geta menn síðan pælt í efnafræðinni sem liggur þar á bak við.

Hitt liggur alveg klárt fyrir að skiljuvatnið sem menn þurfa að hafa áhyggjur af, var til ársins 2003 veitt út í Nesjavallalækinn. Nota bene, hann hefur frá fornu runnið ofan úr Henglafjöllum og þar hefur verið affall í hann úr hverunum. En Nesjavallalækurinn, ef hv. þingmaður þekkir til hans, hverfur ofan í hraunið þar sem heitir Lækjarhvarf, skammt frá Grafningsveginum, og þá leitar þetta væntanlega allt saman út í vatnið líka.

Árið 2003 voru boraðar tvær niðurrennslisholur og nú er verið að gera fleiri holur og stefnt er að því. Það er kannski mikilvægasta mótvægisaðgerðin varðandi þetta, bæði skiljuvatnið og þéttivatnið, sem sagt að allt vatn sem máli skiptir verði sett ofan í þessar niðurrennslisholur. Hv. þingmaður segir: Enginn veit hvernig tekst til með það. Nú er komin svolítil reynsla á það. En þá er það sett niður fyrir grunnvatnið og niður í jarðhitageyminn. Hann er á 400–600 metra dýpi.

Þetta er það sem nákvæmast er hægt að segja um hvernig að afrennslinu er háttað og mitt mat er að því hefur greinilega ekki verið háttað nægilega vel. Það er alveg klárt þótt áformin séu góð.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort taldar séu líkur á tengslum á milli þessa afrennslis og kvikasilfursins í urriðanum. Frá því er fyrst að segja er urriði er efstur í fæðukeðjunni og urriðinn í Þingvallavatni er sérstakur. Hann verður mjög gamall og mjög stór, verður seint kynþroska og jafnframt mjög feitur. Lífverur á norðurhjaranum sem eru mjög feitar safna í sig þungmálmum og þrávirkum efnum. Það getur vel verið að án allra tengsla við virkjanirnar kunni að verða hátt magn kvikasilfurs í svona stórurriða, bara út frá því hvar hann er settur í fæðukeðjunni. Það hafa menn t.d. séð í Noregi og í Kanada, bara í stórum urriða.

Það sem flækir þessa mynd síðan er að í Elliðavatni sem er skammt frá — ég veit ekki til þess að bein tengsl séu á milli jarðhitavatns og lífríkisins þar — hafa menn líka fundið svipað magn í urriða en ekki öðrum vötnum. Urriðinn í Elliðavatni lifir ekki í stöðugri fiskaveislu eins og í Þingvallavatni.

Gerðar voru rannsóknir á lífríki Þingvallavatns þegar Pétur M. Jónasson prófessor gerði sínar miklu rannsóknir sem gefnar voru út fyrir 10–12 árum og þá var m.a. mælt kvikasilfur. Það sem er athyglisvert við þær rannsóknir er að ekki kemur fram kvikasilfur í neinum lífverum sem mældar voru í Þingvallavatni. Með öðrum orðum, það var ekki hægt að finna vísbendingar um að magn kvikasilfurs ykist eftir því sem menn lesa sig ofar í fæðustiganum. Það liggur hins vegar alveg klárt fyrir að annars staðar í heiminum eins og á Nýja-Sjálandi, þar sem jarðhitatvatn hefur runnið beint út í vötn þar sem fiskur er í, sjá menn þetta.

Magnið af kvikasilfri í því vatni sem farið hefur frá Nesjavöllum út í Þingvallavatn hefur verið mjög, mjög lágt. En það er ekki loku fyrir það skotið að þarna hafi verið um áhrif frá Nesjavallavirkjun að ræða og ég tel alla vega (Forseti hringir.) algjörlega nauðsynlegt að skoða þetta. Mér finnast líkurnar það miklar að skoða verði þetta ákaflega vel. Þriðju spurningunni um ástandsmælingarnar svara ég hér á eftir.