135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

umhverfisáhrif Nesjavallavirkjunar.

469. mál
[14:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Stundum háttar svo til að hæstv. ráðherrar fá spurningar sem þeir hafa sérstaka unun af að svara og það var svo í þessu tilfelli og ég þakka svarið. Það var gaman að hlusta á það og ég hlakka líka til þess að heyra niðurlagið.

Það er vitað að í uppistöðulónum safnast gjarnan fyrir aukið magn kvikasilfurs og það greinir uppistöðulón frá náttúrulegum vötnum. Nú eru bæði vötnin sem hæstv. ráðherra nefnir, Elliðavatn og Þingvallavatn, að því marki uppistöðulón þó að þau séu ekki með mikilli vatnsborðssveiflu og því kann að vera að þar liggi hundurinn grafinn.

En það er líka alvarlegt til þess að vita og það kom fram í fjölmiðlum í tengslum við fréttina sem ég nefndi áðan að það hefur verið sótt um styrki í Orkusjóð til þess að rannsaka nákvæmlega þetta. Það gerðu færustu líffræðingar okkar og fengu synjun og það finnst mér að stjórn Orkusjóðs eigi að taka til alvarlegrar skoðunar.

Mér þykir afar miður að vita að það skuli hafa verið sótt af vísindamönnum okkar að fá að rannsaka þetta en að þeir hafi ekki fengið fjármuni til þess. Í þeim efnum held ég að við þurfum aðeins að taka í hnakkadrambið á sjálfum okkur.

Varðandi þéttivatnið annars vegar og skiljuvatnið hins vegar þá er það staðreynd að skiljuvatnið sem hefur að geyma öll efnin sem koma upp, öll jarðefni sem koma upp með vatninu sem borað er eftir, þau koma í það miklu magni upp úr jörðinni á Hengilssvæðinu núna að það er veruleg þörf á því að fara með mikilli gát og þó að niðurdælingin sé í gangi þá er það í raun og veru ekki nægilega vel vitað enn þá hvort okkur tekst að losa okkur við vatnið á þann stað sem við ætlum okkur að gera. Þetta tengist síðan allt stórum umræðum um sjálfbærni jarðvarmavirkjana sem ekki er tími til að fara frekar út í hér.